Vökudagar hefjast á Akranesi á morgun

Lista- og menningarhátíðin Vökudagar er haldin á hverju ári en hún var fyrst haldin 2002. Í ár stendur hátíðin frá fimmtudeginum 29. október til 8. nóvember. Tilgangur hátíðarinnar er ekki síst að efla menningarlífið í bænum og lífga um leið upp á skammdegið. Umfang hátíðarinnar hefur aukist ár frá ári og hefur hún notið vaxandi vinsælda meðal bæjarbúa. Reyndar hefur hróður hennar borist langt út fyrir bæjarmörkin enda sækir fólk úr nágrannasveitarfélögum og jafnvel víðar að hátíðina. Dagskrá hennar og viðburðir hafa sömuleiðis orðið viðameiri með hverju árinu og einnig hefur þátttaka fyrirtækja og stofnana aukist jafnt og þétt. Þannig hafa Vökudagar öðlast sinn fasta sess í bæjarlífinu.

Í samtali við Skessuhorn segir Ella María Gunnarsdóttir, forstöðumaður menningar- og safnamála hjá Akraneskaupstað, að hátíðin sé óvenjuleg í ár vegna COVID-19 en aðstandendur séu að gera sitt ítrasta til þess að bæjarbúar njóti hátíðarinnar sem allra best. Það sé þó ljóst að dagskráin geti breyst með afar litlum fyrirvara vegna ástandsins og leggur Ella María áherslu á að fólk fylgist vel með viðburðadagatali Akraneskaupstaðar, skagalif.is en þar er að finna nýjustu upplýsingar um viðburði hátíðarinnar. Þá upplýsir Ella María að bæjarbúar megi eiga von á því að víða verði kveikt á ljósum í bænum þegar hátíðin gengur í garð.

Dagskrá Vökudaga 2020 tekur mið af fjöldatakmörkunum og öðrum fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda. Hér fyrir neðan er stiklað á stóru í dagskránni.

Myndlistarsýningar

Aldís Petra og Gróa Dagmar sýna málverk í gluggum verslunarinnar Nínu. Silja Sif sýnir málverk í gluggum Bílvers. Málverkasýning Jóhönnu L. Jónsdóttur, Fantasía, fer fram á Fésbókarsíðunni Hanna málverk. Myndlistarsýningin Strand by Jaclyn Poucel Árnason verður í Gallerý Bjarni Þórs. Zentangle, listsýning Borghildar Jósúadóttur og Steinunnar Guðmundsdóttur, verður á Bókasafni Akraness. Leirbakaríið býður upp á sýninguna Áfram með smjörið.

Ljósmyndasýningar

Kaffibolli á Kóvidtímum, ljósmyndasýning Helgu Ólafar Oliversdóttur verður í gluggum Tónlistarskóla Akraness. Svona er Akranes, útiljósmyndasýning Friðþjófs Helgasonar, verður við Langasand. Ljósmyndasýning starfsbrautar FVA verður í gluggum Bókasafns Akraness.

Tónleikar og upplestur

Sigurbjörg Þrastardóttir stýrir upplestri rithöfunda úr nýjum bókum í streymi. Jazzkvartett Halla Guðmunds heldur tónleika í Vinaminni. Valgerður Jónsdóttir lítur við með gítarinn og spilar ljúfa tóna fyrir gesti í Café Kaju.

Annað sem má nefna er tískuhönnuðurinn Kristín Ósk Halldórsdóttir sem sýnir hluta af vörum sínum á Bókasafninu.

Þessi upptalning er ekki tæmandi og er áhugasömum bent á viðburðadagatal Akraneskaupstaðar og auglýsingu hér í blaðinu varðandi nánari upplýsingar um viðburði og tímasetningar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.