Haraldur er nýr skólastjóri Auðarskóla

Haraldur Haraldsson hefur verið ráðinn skólastjóri Auðarskóla í Búðardal og tekur hann við af Hlöðveri Inga Gunnarssyni um næstu mánaðamót. Haraldur hefur starfað sem skólastjóri í um 30 ár, fyrst við Ásgarðsskóla í Kjós. „Ég byrjaði þar beint eftir háskólanámið, bara af tilviljun,“ segir Haraldur í samtali við Skessuhorn. „Ég ætlaði að fara að kenna smíðar í nýrri smíðastofu í Grundaskóla á Akranesi. Konan mín er líka kennari og hún hugðist einnig ráða sig til kennslu í Grundaskóla. Á leið okkar þaðan eftir að hafa hitt skólastjórann, Guðbjart Hannesson heitinn, sem vildi ráða okkur bæði, keyrðum við Hvalfjörðinn í fallegu veðri að vori til. Við sáum á leið okkar hvar flaggað var við hvítt, stórt og mikið hús og ákváðum að stoppa. Þar hittum við tvo menn við rimlahlið, annar þeirra var oddviti og hinn skólanefndarformaður, og spurðum við af hverju fáni væri þar dreginn að húni. Þeir sögðu okkur að verið væri að kveðja skólastjóra og spurðu okkur svo hver við værum og hvernig stæði á ferðum okkar. Þeir hvöttu okkur til þess að sækja um, sem við og gerðum, og Kjósverjar höfðu þá djörfung að ráða nýútskrifaða nemann sem skólastjóra,“ segir Haraldur. „Réttindi til kennslu hafði ég ekki í höndum fyrr en einhverjum vikum seinna,“ bætir hann við og hlær. „Þar með hófst skólastjóraferill minn og síðan hef ég verið stjórnandi, en auk þess kennt á öllum skólastigum; á grunn-, framhalds- og háskólastigi,“ segir Haraldur.

Nánar er rætt við Harald í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir