Áætla að tekjufallsstyrkir til ferðaþjónustunnar verði 3,5 milljarðar

Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki munu minni ferðaþjónustuaðilar, leiðsögumenn og fleiri geta sótt um styrk vegna tekjufalls sem varð vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Samkvæmt mati sem ráðgjafafyrirtækið KPMG vann fyrir ráðuneytið er áætlað að stuðningur við ferðaþjónustuna vegna þessa úrræðis geti numið um 3,5 milljarði króna nýti allir þessa leið. Frumvarpið hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Styrkirnir munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september, en geta þó ekki orðið hærri en 400 þúsund krónur fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu. Verði frumvarpið að lögum þurfa rekstraraðilar að uppfylla nokkur skilyrði. Þeir þurfa að hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020, að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila og umsækjendur þurfa að auki að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir