Ðe Lónlí Blú Bojs fluttu frábæran söngleik í Samkomuhúsi Grundarfjarðar á Rökkurdögum í fyrra. Ljósm. úr safni/bá.

Rökkurdagar haldnir hátíðlegir í Grundarfirði

Menningarhátíðin Rökkurdagar í Grundarfirði hefjast í dag, mánudaginn 26. október og standa til 1. nóvember. Í ljósi aðstæðna er hátíðin með breyttu sniði í ár en Grundfirðingar gera það besta úr aðstæðum og hefur nú birst vegleg dagskrá á heimasíðu bæjarins. Íbúar eru hvattir til að vera duglegir með myndavélina á meðan Rökkurdögum stendur og birta myndir á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #rökkur2020.

Börnin á Leikskólanum Sólvöllum setja upp listasýningu í gluggum Kjörbúðarinnar, grunnskólakrakkar fara í kærleiksgöngu og skilja eftir kærleiksorð við hús bæjarins. Íbúar eru hvattir til að lýsa upp skammdegið með hvítum seríum og einnig að setja upp eigin útfærslu af hjörtum í glugga húsa sinna. Þá er fólk hvatt til að ganga á Gráborg með sínu nánasta fólki og taka skemmtilegar myndir þar og birta á samfélagsmiðlum. Verðlaun verða veitt fyrir frumlegustu eða skemmtilegustu myndina. Líkamsræktin í Grundarfirði ætlar að bjóða upp á heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri og þá sem búa við örorku, þriðjudaginn 27. október kl. 10:30 í Þríhyrningnum. Hrekkjavakan verður haldin hátíðleg með búningadegi í leik- og grunnskólanum föstudaginn 30. október og daginn eftir munu börn ganga í hús til þeirra sem vilja, og fá nammi. Hægt er að skrá sitt heimili á Facebook síðunni Hrekkjavaka Grundarfirði 2020.

Ef veðrið leyfir verður kirkjukórinn með söngstund fyrir utan dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól. Þá verður einnig boðið upp á rökkursund í sundlauginni og vasaljósagöngu ef veðrið stendur ekki í vegi fyrir því. Líkamsræktin í Grundarfirði ætlar að bjóða upp á Rökkurbyrjendaspinning fimmtudaginn 29. október og Rökkurspinning föstudaginn 30. október en takmörkuð pláss eru í boði og því mikilvægt að skrá sig á Facebook síðu Líkamsræktarinnar í Grundarfirði. Að lokum verður rafræn söngstund þar sem bæjarbúar syngja íslensk lög á upptöku sem sett verður á netið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir