Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. Ljósm. Stjórnarráðið.

Ísland fjarlægt af gráa listanum

Ísland hefur verið fjarlægt af hinum svokallaða gráa lista FAFT, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta var ákveðið á aðalfundi hópsins á föstudag.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Stjórnarráðinu, en Ísland var sett á listann í október í fyrra en hefur verið fjarlægt af listanum í kjölfar vettvangsathugunar hér á landi í lok september, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þar hafi sérfræðingar FAFT staðfest að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af listanum. „Við sama tilefni var jafnframt staðreynt af hálfu umræddra sérfræðinga að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,“ segir í tilkynningunni. Þar er jafnframt haft eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að grettistaki hafi verið lyft í þessum efnum undanfarin tvö ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir