Fjárrekstur. Ljósm. úr safni: Steina Matt.

Innlausnarmarkaður fyrir greiðslumark sauðfjár

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur boðað að innlausnarmarkaður fyrir greiðslumark sauðfjár verði haldinn fyrstu vikuna í nóvember. Innlausnarverðið er andvirði beingreiðslna næstu tveggja ára á núvirði, eða kr. 12.764 á ærgildi. Það greiðslumark sem er innleyst verður jafnframt boðið til sölu á innlausnarverði.

Bændur sem eiga hundrað kindur eða fleiri og hafa ásetningshlutfallið 1,0 eða hærra eiga forgang að öllu greiðslumarki sem í boði er á markaðnum, þar af 60% til þeirra sem eiga 200 fjár eða fleira og hafa ásetningshlutfallið 1,6 eða hærra. Skiptist það hlutfallslega milli þeirra sem hljóta forgang í samræmi við það magn sem þeir óska þess að kaupa. Hver framleiðandi getur ekki óskað eftir ærgildum umfram þau sem tryggja honum óskertar beingreiðslur í samræmi við fjölda fjár og ásetningshlutfall. Það greiðslumark sem ekki er úthlutað til þeirra sem eiga forgang verður boðið öðrum umsækjendum.

Með beiðni um innlausn skal fylgja veðbókarvottorð, staðfesting á eignarhaldi lögbýlis og samþykki ábúanda, sameigenda og veðhafa lögbýlisins. Kaupandi greiðslumarksins nýtir það frá og með 1. janúar 2021.

Opnað hefur verið fyrir kaup og sölu greiðslumarks í Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins á www.afurd.is. Tilboðsfrestur rennur út á miðnætti sunnudaginn 1. nóvember næstkomandi og tilkynnt verður um niðurstöðu markaðarins eigi síðar en 8. nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir