Úr Dýrafjarðargöngum. Ljósm. bb.is

Dýrafjarðargöng verða opnuð í dag

Klukkan 14 í dag verða Dýrafjarðargöng á Vestfjörðum formlega opnuð. Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4 km þar sem leiðin yfir Hrafnseyrarheiði, sem lengi hefur verið einn helsti farartálminn yfir vetrarmánuðina, leggst af. Nú er því hægt að tryggja öruggar samgöngur milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Um leið er stigið skref í að tryggja vegasamband milli vestfirskra byggða. Vegagerðin hefur hafist handa við næsta áfanga sem er nýr og endurbættur vegur yfir Dynjandisheiði.

Vegna kórónaveirunnar verður vígsla ganganna með óhefðbundnum hætti, en Sigurður Ingi Jóhannson samgönguráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, verða stödd í húsakynnum Vegagerðarinnar í Reykjavík og munu þau biðja vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði að lyfta slánum við gangamunnana og þannig opna göngin fyrir umferð. Viðburðinum verður streymt á Facebook síðu Vegagerðarinnar.

Vestfirðingum er boðið að safnast saman í bílum sínum við báða munna ganganna og fá þannig tækifæri til að aka í gegnum göngin um leið og þau hafa verið opnuð. Nemendur Grunnskólans á Þingeyri munu fyrstir aka í gegn Dýrafjarðarmegin ásamt Gunnari Gísla Sigurðssyni sem hefur mokað Hrafnseyrarheiði síðan árið 1974. Skólabörnin hafa þrýst á um samgöngubætur og óskuðu strax eftir því við samgönguráðherra í janúar að fá að aka fyrst í gegnum göngin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir