Smalahundurinn Moli slakar hér á í leit á Þóreyjartungum fyrr í haust. Ljósm. Sveinbjörn Eyjólfsson.

Þjóðlenduúrskurði um Þóreyjartungur snúið við í Landsrétti

Landsréttur kvað sl. föstudag upp dóm í þjóðlendumáli er snertir Þóreyjartungur í ofanverðum Borgarfirði, sem eru hluti af sameiginlegum afrétti Lundarreykjadals og Andakílshrepps. Með dómnum sneri Landsréttur við bæði niðurstöðu Óbyggðanefndar og dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 10. apríl 2019, sem staðfest hafði kröfu Óbyggðanefndar um að Þóreyjartungur væru þjóðlenda. Óbyggðanefnd hafði ekki fallist á aldagamla pappíra, sem teygja sig allt aftur á 14. öld, og tengjast jörðinni Hrísum sem lengi var eign Reykholtskirkju. Ágreiningur snerist um hvort Þóreyjartungur hefðu fyrr á öldum verið hluti Hrísajarðarinnar og þar með fullkomið eignarland eða einungis hafi verið um beitarafnot að ræða. Það skal þó tekið fram að Óbyggðanefnd ákvað í úrskurði sínum að svæðið væri í afréttareigu Sjálfseignarstofnunarinnar Oks sem nyti þar veiðiréttar í ám samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði. Greindi aðila í málinu því einungis á um þá niðurstöðu Óbyggðanefndar að Þóreyjartungur væru þjóðlenda.

Það var Sjálfseignarstofnunin Ok sem áfrýjaði dómi Héraðsdóms Vesturlands og niðurstöðu Óbyggðanefndar með stefnu á hendur íslenska ríkinu fyrir Landsrétti. Krafðist félagið þess að fellt yrði úr gildi ákvæði í úrskurði Óbyggðanefndar um að Þóreyjartungur væri þjóðlenda með nánar tilgreindum merkjum, en í afréttareign sjálfseignarstofnunarinnar. Áfrýjaði sjálfseignarstofnunin dómi Héraðsdóms Vesturlands frá 10. apríl 2019 þar sem ríkið var sýknað af kröfu um að felld yrði úr gildi ákvörðun Óbyggðanefndar um að Þóeyrjartungur væru þjóðlenda.

Reisti stefndandi kröfu sína á því að landið væri háð beinum eignarrétti hans. Á það féllst Landsréttur sem felldi því úr gildi ákvæði í úrskurði Óbyggðanefndar um að Þóreyjartungur væri þjóðlenda og viðurkennt yrði að enga þjóðlendu væri að finna innan þessa svæðis. Í dómsorðum meirihluta dómara við Landsrétt segir: „Fellt er úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 11. október 2016 í máli nr. 5/2014 um að landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, það er Þóreyjartungur, sé þjóðlenda: „Upphafspunktur er við ármót Flókadalsár og Syðri-Sandfellskvíslar. Þaðan er Flókadalsá fylgt til upptaka. Þaðan er dregin bein lína í upptök Syðri-Sandfellskvíslar. Syðri-Sandfellskvísl er svo fylgt vestur í upphafspunkt við Flókadalsá.“ Viðurkennt er að enga þjóðlendu er að finna innan framangreinds svæðis. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, sjálfseignarstofnunarinnar Oks, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.700.000 krónur.“ Einn dómara Landsréttar skilaði séráliti. Taldi hann að sýkna bæri ríkið af kröfu áfrýjanda og staðfesta hinn áfrýjaða dóm Héraðsdóms Vesturlands sem dæmt hafði Þóreyjartungur sem þjóðlendu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir