Daði og Gagnamagnið. Ljósm. Eurovision Song Contest/ Mummi Lú.

Daði og Gagnamagnið í Eurovision á næsta ári

Ríkisútvarpið hefur ákveðið að velja Daða Frey og Gagnamagnið til að taka þátt í Eurovision-keppninni í Hollandi fyrir Íslands hönd á næsta ári. Daði sigraði Söngvakeppnina hér heima með laginu Think About Things síðastliðinn vetur. Lagið vakti mikla athygli víða um heim og þótti Daði af mörgum líklegur til sigurs í Eurovision-keppninni, sem var síðar aflýst vegna Covid-19 faraldursins.

Eftir að það lá fyrir að engin keppni yrði í ár var ákveðið að löndin mættu senda þann keppanda sem bar sigur úr býtum í forkeppni í heimalandi sínu, að því skilyrði að hann mætti til leiks með nýtt lag. Þátttökulöndunum var einnig gefinn kostur á að halda nýja keppni og velja nýjan flytjanda og lag, sýndist þeim svo. Daða var í kjölfarið boðið að taka þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd í næstu keppni.

Í tilkynningu frá RÚV er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni dagskrárstjóra að hann sé ánægður með að Daði hafi þegið boðið. „Daði sigraði Söngvakeppnina 2020 með yfirburðum og viðtökurnar við íslenska framlaginu hafa aldrei verið svona góðar. Við erum því afar ánægð og stolt yfir því að geta sent þennan frábæra tónlistarmann og hans fólk út eins og stóð til að gera síðast,“ segir Skarphéðinn, sem telur að það hafi verið hið eina rétta í stöðunni að bjóða Daða að keppa í Eurovision þar sem engin keppni hafi verið haldin í ár. „Okkur fannst það bæði rétt og sanngjarnt,“ segir hann.

Haft er eftir Daða í tilkynningunni að hann sé spenntur að standa á sviðinu í Eurovision. „Við stefndum alltaf að því að sjá hversu langt við gætum komist í keppninni og það verður eins á næsta ári. Allt Gagnamagnið verður með. Aðalatriðið í þessu er að það verði gaman en ég held að það sé mest gaman að vinna. Nú vona ég bara að það verði haldin alvöru keppni,“ segir Daði. Lagið sem verður framlag Íslands er ekki tilbúið, en Daði kveðst þó vera með nokkar hugmyndir í kollinum.

Því verður engin Söngvakeppni hér heima á næsta ári, en Eurovision-aðdáendur þurfa þó ekki að örvænta. Ríkisútvarpið hyggst halda úti öflugri tónlistardagskrá í febrúar og mars, á þeim tíma sem Söngvakeppnin hefði annars farið fram. „Sú dagskrá mun að einhverju leyti tengjast Söngvakeppninni og Eurovision,“ segir Skarphéðinn dagskrárstjóri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.