Glaðbeittir starfsmenn Norðuráls á Grundartanga. Ljósm. úr safni.

Níutíu prósent fylgjandi nýjum samningi

Starfsmenn Norðuráls samþykktu nýjan kjarasamning við fyrirtækið með afgerandi meirihluta, eða 89,2% greiddra atkvæða. Alls voru 8% andvíg en 2,8% tóku ekki afstöðu til samningsins, að því er fram kemur á vef Verkalýðsfélags Akraness. Þátttaka í kosningunni um kjarasamningin var afar góð. Alls greiddu 399 manns atkvæði, eða 88,% þeirra sem voru á kjörskrá.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, lýsir ánægju sinni með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á vef félagsins og þakkar starfsfólki Norðuráls fyrir samstöðuna og veittan stuðning í erfiðum kjaraviðræðum, en þær stóðu yfir í tíu mánuði.

Eins og greint var frá í nýjasta tölublaði Skessuhorns kveður kjarasamningurinn á sams konar launahækkanir og tilgreindar eru í lífskjarasamningnum svokallaða. Heildarlaun vaktmanns á byrjunartaxta munu til að mynda nema um 686 þús. krónum á mánuði, sem er 43 þús. króna hækkun, og heildarlaun vaktmanna á tíu ára taxta munu nema um 825 þús. krónum, sem samsvarar um 52 þús. króna hækkun á mánuði. Þá er einnig kveðið á um það í nýjum kjarasamingi að komið verði á átta stunda vaktakerfi í álverinu eigi síðar en 1. janúar 2022, eins og áður hefur verið greint frá.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Banaslys við Akranes

Laust fyrir klukkan 21 í gær voru viðbragðsaðilar; lögregla auk björgunarsveita á Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði kallaðar út með hæsta... Lesa meira