Fjallasýn frá bæjarhlaðinu á Augastöðum.

Hefja söfnun til stuðnings Snorra á Augastöðum

Undir kvöld á sunnudag kom upp eldur í íbúðarhúsinu á bænum Augastöðum í Hálsasveit í Borgarfirði. Húsið varð fljótt alelda. Húsmóðirin, Jóhanna Guðrún Björnsdóttir, var ein í húsinu þegar eldurinn kom upp og lést hún í brunanum. Jóhanna var sjötug að aldri, fædd 5. desember 1949. Hún lætur eftir sig eiginmann, Snorra Jóhannesson, fjögur uppkomin börn og fjölskyldur þeirra.

Í brunanum missti Snorri ekki einungis ástvin og lífsförunaut, heldur auk þess íbúðarhús sitt og allt innbú. Að frumkvæði vina og ættingja Snorra á Augastöðum hefur verið hrundið af stað fjársöfnun til að gera eftirleikinn bærilegri. Árdís Kjartansdóttir mágkona hans fylgir söfnunni úr hlaði og ritar:

„Það má með sanni segja að árið 2020 sé „Annus horribilis“ í lífi fjölskyldunnar frá Augastöðum. Eins og margir hafa frétt, varð sá hræðilegi atburður síðasta sunnudag að íbúðarhús Snorra mágs míns og Hönnu svilkonu að Augastöðum í Borgarfirði, brann til grunna og elsku Hanna fórst í brunanum. Snorri hefur því ekki einungis misst lífsförunaut sinn, heldur heimili og allar eigur.

Allmargir hafa haft samband, bæði við okkur og aðra í ættingja- og vinahópi Snorra og Hönnu. Þetta góða fólk vill leggja sitt af mörkum til að gera eftirleikinn bærilegri fyrir Snorra. Þau heiðurshjón voru enda vinamörg, sem ekki er að undra, elskuleg, hjálpsöm, röggsöm, dugleg, brosmild, hláturgjörn og hörkuduglegt eðalfólk. Frábærlega gestrisin og skemmtileg heim að sækja á Augastaði. (Það fyrsta sem mér kemur einmitt í hug þegar ég minnist Hönnu er dillandi hlátur hennar),“ skrifar Árdís. Til að svara þessu kalli hefur verið stofnaður styrktarreikningur í nafni Snorra:

Reikningsnúmerið er: 0322-13-400032 og kennitalan: 211247-3049.

Snorri Jóhannesson

Líkar þetta

Fleiri fréttir