Dabjartur Arilíusson hefur opnað nýja vefverslun fyrir Brugghús Steðja og ætlar að keyra með pantanir heim til fólks.

Hefja vefverslun með Steðja bjór

Brugghús Steðja í Borgarfirði hefur nú opnað vefverslun með bjór. Almenningur sem náð hefur tilskyldum áfengiskaupaaldri getur nú pantað í vefverslun Steðja brugghúss á slóðinni stedji.com og fengið vöruna senda heim að dyrum. „Við tókum þá ákvörðun að láta reyna á EES samninginn og það jafnfræði sem honum er gert að tryggja milli þegna þessa lands og annarra Evrópuríkja. Ríkið, einkasöluaðilinn á íslenskum áfengissölumarkaði, er bókstaflega að traðka á okkur og vísa ég þá til þess hversu varan okkar fer í dreifingu í fáum verslunum. Jólabjórinn frá okkur á til að mynda einungis að fara í tvær verslanir í Reykjavík fyrir þessi jól; Heiðrúnu og Skútuvog. Ekkert þess fyrir utan. Allir sem þekkja til svona starfsemi vita að árstíðabundin vara eins og framleiðsla á jóla- eða páskabjór, er einungis fáanleg í nokkrar vikur í senn. Sala á árstíðavörunni er því það sem heldur gangandi þessum litlu brugghúsum eins og okkar. Þessi vestlenska framleiðsla verður því að óbreyttu ekki einu sinni boðin til sölu í Vínbúðum hér í landslutanum. Mér er því nóg boðið og ætla hiklaust að láta reyna á hvort þessi vefverslun okkar verði stöðvuð eða látin í friði,“ segir Dagbjartur Arilíusson eigandi Brugghúss Steðja í samtali við Skessuhorn.

Aðspurður segir Dagbjartur að hann hafi ekkert sérstakt leyfi í höndunum vegna opnunar vefverslunarinnar. „Við ætlum að leggja allt undir í þessu dæmi, bæði rekstrar- og áfengisleyfi, þar sem við teljum að verið sé að brjóta á okkur. Okkur finnst að fólk eigi að geta fengið betri þjónustu en þetta. Vegna tregðu í ríkiseinokun ÁTVR er annað hvort fyrir okkur að berjast gegn stöðnuðu kerfi og allt að því spillingu, eða að drepast ofan í bringuna á okkur. Allt tal um mikilvægi þess að velja íslenskt og styðja þannig við innlenda framleiðslu, er hlægilegt í mínum huga meðan kerfið er ekki betra en þetta.“

Hampur er nýjasti bjórinn – eingöngu í vefverslun

Auk hefðbundinna tegunda af Steðja bjór mun brugghúsið nú fyrir aðventuna bjóða tvær gerðir af jólabjór til sölu í vefverslun sinni. Annars vegar bjórinn Almáttugan, sem er lakkrís porter bjór, en hins vegar Halelúja, sem er svartbjór. „Svo er nýjung í framleiðslunni hjá okkur sem einungis verður til sölu í vefverslun Steðja. „Þetta er nýr bjór sem bruggaður er úr íslenskum iðnaðarhampi sem ræktaður er á Suðurlandi og nefnist Steðji – Hampur,“ segir Dagjartur. Hann bætir því við að á vefsíðu brugghússins megi sjá dreifingaráætlun þar sem útkeyrsla er á fyrirfram ákveðnum tímum á þeirra eigin dreifingarbílum. „Ef sú áætlun hentar ekki kaupendum munum við nota aðrar flutningsleiðir.“

Lágmarkspöntun í netverslun Steðja er einn kassi (24 flöskur). Þegar vara er afhend þarf að framvísa skilríkjum og sannreyna 20 ára aldurstakmark. Lofað er fyllsta öryggis í afhendingu vegna Covid19.

Líkar þetta

Fleiri fréttir