Óli Sverrir Sigurjónsson, Sigríður Þórarinsdóttir, Rebekka Guðjónsdóttir, Harpa Björnsdóttir og Ólafur Adolfsson daginn sem kaupin voru undirrituð. Ljósm. af.

Ólafur kaupir Apótek Ólafsvíkur

Um liðna helgi var skrifað undir kaupsamning að Apóteki Ólafsvíkur, sem hjónin Óli Sverrir Sigurjónsson lyfsali og Sigríður Þórarinsdóttir hafa átt og rekið undanfarin 34 ár. Kaupandi er Ólafur Adolfsson, eigandi Apóteks Vesturlands, og er í kaupsamningi gert ráð fyrir að hann taki við rekstrinum um næstu áramót. „Afmælisdagurinn minn hefur jafnan verið mér til gæfu og reynst mér góður til að taka stórar ákvarðanir,“ sagði Ólafur Adolfsson síðastliðinn sunnudag þegar skrifað var undir samninginn. „Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og leggja mitt af mörkum inn í samfélagið hér í Snæfellsbæ,“ segir hann, en sjálfur er hann uppalinn Ólsari.

Ólafur hefur undanfarin þrettán ár rekið Apótek Vesturlands á Akranesi. Auk þess á hann ásamt meðeigendum sínum tvö apótek á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavíkur Apótek við Seljaveg 2 og nýlega opnaði hann nýtt apótek undir merkjum Reykjavíkur Apóteks í Skeifunni 11b. Apótek í hans eigu eru því orðin fjögur. En hyggst Ólafur færa enn frekar út kvíarnar hér á Vesturlandi? „Ég tel að á Vesturlandi sé að finna frekari tækifæri fyrir Apótek Vesturlands og á mér draum í þeim efnum. Tíminn mun síðan leiða í ljós hvort að sá draumur verður að veruleika,“ segir Ólafur í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir