Kona lést í eldsvoða í Borgarfirði

Klukkan 17:37 í gær barst tilkynning um eld í íbúðarhúsi á bæ í Hálsasveit í Borgarfirði. Við komu slökkviliðs og lögreglu á vettvang var íbúðarhúsið alelda. Ein kona var í húsinu þegar eldurinn kom upp og lést hún í brunanum. Í tilkynningu frá Lögreglunni á Vesturlandi kemur fram að ekki er vitað um eldsupptök og er rannsókn á frumstigi. Lögreglan á Vesturlandi, ásamt tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, rannsakar eldsupptök.

Aðstæður til slökkvistarfs voru erfiðar í gærkvöldi, en fjölmennt slökkvilið náði tökum á eldinum um þremur tímum eftir komu á vettvang. Húsið er gjörónýtt. Slökkvistarfi lauk svo um klukkan 23 í gærkvöldi en að því komu slökkvilið frá öllum starfsstöðvum Slökkviliðs Borgarbyggðar auk þess sem aðstoð barst frá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að frekari upplýsingar verða ekki veittar að svo komnu máli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir