Svipmynd úr safni Skessuhorns af loðnuveiðum á Víkingi AK. Ljósm. Friðþjófur Helgason.

Engar loðnuveiðar ráðgerðar á næstu vertíð

Hafrannsóknastofnun gaf á föstudaginn út skýrslu um ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2020. Samkvæmt henni leggur stofnunin til, í samræmi við aflareglu strandríkja, að engar loðnuveiðar verði leyfðar fiskveiðiárið 2020/2021. Það yrði því þriðja vertíðin í röð þar sem loðnuveiðar falla niður við Íslandsstrendur.

Bergmálsmælingar á stærð loðnustofnsins fóru fram á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni og norska uppsjávarskipinu Erosi dagana 7. september – 5. október. Rannsóknarsvæðið náði frá landgrunninu við Austur Grænland og suðvestur með landgrunnskanti Grænlands, um Grænlandssund, Íslandshaf, hafsvæðis vestan Jan Mayen og Norðurmið. Loðna fannst víða á rannsóknarsvæðinu. Ungloðna, sem myndar hrygningar- og veiðistofninn á vertíðinni 2021/2022, var vestast og sunnantil á svæðinu en eldri loðna var mest áberandi norðar, á landgrunni Grænlands, austan við Scoresbysund. Almennt var kynþroska loðnu að finna á svipuðum svæðum og undanfarin ár, en útbreiðsla hennar náði þó hvorki norður fyrir Kong Oscar fjörð né austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.

Niðurstöður leiðangursins byggja á umfangsmikilli yfirferð en tafir vegna veðurs ollu minni yfirferð á jaðarsvæðum. Hafís á norðanverðu rannsóknarsvæðinu hindraði að hluta áætlaða yfirferð þar, en í sumum tilfellum var loðnu að finna í námunda við hafísinn. „Því gæti verið um að ræða vanmat á magni kynþroska stofnhlutans, en ekki er unnt að meta umfang þess,“ segir í tilkynningu frá Hafró.

Samkvæmt bergmálsmælingunni haustið 2020 er hrygningarstofn loðnu metinn 344 .000 tonn. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 .000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Samkvæmt framreikningum munu markmið aflareglu ekki nást, jafnvel þótt engar veiðar verði stundaðar á vertíðinni 2020/2021. Vísitala ungloðnu (ókynþroska eins og tveggja ára) var sú hæsta síðan árið 1995.

Ráðgjöfin verður endurmetin þegar niðurstöður mælinga í byrjun árs 2021 á stærð veiðistofnsins liggja fyrir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.