Ásgeir Kristinsson með kindina á öxlunum. Ljósm. Daníel Þór Ágústsson.

Björguðu kind úr sjálfheldu í Akrafjalli

Þau eru ýmis verkefnin sem félagar í Björgunarfélagi Akraness sinna. Í gær fengu þeir það verkefni að bjarga kind sem hafði ratað í sjálfheldu í klettum Akrafjalls, ofan við bæinn Kjalardal. Hafði kindin verið þar í nokkra daga. Ásgeir Kristinsson, félagi í Björgunarfélaginu, segir í pistli á facebook síðu sinni að hann tekið sig til í gær og skellt sér í smalamennsku, óhefðbundna en skemmtilega. Að sögn Ásgeirs hefði kindin sennilega endað ævina þar ef Björgunarfélagið hefði ekki verið kallað til aðstoðar. Ásgeir heldur áfram: „Það kom í minn hlut að síga eftir kindinni enda eini fjárbóndinn í hópnum (fyrrverandi) og eigandi fjármarks. Þetta var þó nokkur spölur til að sækja niður klettana. Rétt um 60 metrar þannig að ég og Gibba vorum orðin málkunnug í restina.“

Þegar náðst hafði að koma kindinni upp á fjallsbrún lét hún illa að stjórn að sögn Ásgeirs. „Þegar upp var komið var hún eitthvað áttavillt þannig að þegar við slepptum henni tók hún strauið beint aftur niður klettana. En við vorum sniðugri. Vorum með hana í spotta þannig að við gátum stoppað hana af eftir fáeina metra. Það var því ekkert annað að gera heldur en að skella henni á axlirnar og rölta með hana inn á fjall þar sem lambið beið móður sinnar. Og Gibba virðist býsna sátt með fararskjótann. Komin tími á að þetta mannfólk geri eitthvað gagn,“ sagði Ásgeir að lokum.

Félagar í Björgunarfélagi Akraness ásamt kindinni. Ljósm. DÞÁ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir