Rjúpnaveiði leyfð þrátt fyrir að stofninn sé í lágmarki

Veiðitímabil rjúpu hér á landi verður frá 1. – 30. nóvember þetta árið, líkt og á síðasta ári, eins og ákveðið var um í reglugerð. Heimilt er að veiða fimm daga í viku, frá föstudegi til þriðjudags, en veiðibann er á miðvikudögum og fimmtudögum. Ítrekað er að sölubann á rjúpum er áfram í gildi og eru veiðimenn hvattir til hófsemi í veiðum. Fyrir liggja tillögur Umhverfisstofnunar um veiðistjórnun á rjúpu sem byggja á mati Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins í ár.

Veiðistofn rjúpu er nú einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995 og aðeins einu sinni áður, þ.e. árið 2002, hefur veiðistofninn verið metinn viðlíka lítill. Því segir í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu að mjög mikilvægt sé að veiðimenn gæti hófsemi í veiðum. Veiðiþol stofnsins er metið um 25.000 rjúpur, sem er um 35% af metnu veiðiþoli í fyrra.

Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins, líkt og annarra auðlinda, skuli vera sjálfbær. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting. Sölubann er á rjúpum en í því felst að óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Umhverfisstofnun er falið að fylgja sölubanninu eftir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir