Lilja Björg Ágústsdóttir er formaður stjórnar SSV. Ljósm. úr safni/ ss.

Vörn verði snúið í sókn

Formaður stjórnar SSV brýnir sveitarstjórnarfólk til dáða

Verkefni sveitarfélaga á tímum Covid-19 er fyrst og fremst að standa vörð um einstaklinga, fyrirtæki og ákveðin grunngildi samfélagsins. Þannig komst Lilja Björg Ágústsdóttir, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, að orði í upphafsræðu sinni á rafrænu haustþingi SSV nú í morgun. „Sveitarfélögin horfa fram á stórar áskoranir bæði heilsufarslegar og efnahagslegar. Atvinnuleysi eykst hratt og grundvöllur til rekstrar fyrirtækja er erfiður. Sveitarfélögin verða öll fyrir miklu tekjutapi og rekstur þeirra þyngist. Og það er allt í lagi! Það er allt í lagi þó að reksturinn sé ekki réttu megin við núllið á svona tímum, það er ekki eðlilegt umhverfi til rekstrar, hvorki hjá fyrirtækjum eða opinberum aðilum,“ sagði Lilja. „Við sem höldum í stjórnartaumana í sveitarfélögunum, við stefnum öll að því að sigla okkar sveitarfélögum í gegnum þetta öldurót, halda uppi öflugri þjónustu, beita okkur fyrir bættum efnahag og styðja vel við atvinnulífið. Það er okkar hlutverk.“

Tækifærið er núna

Slíkt, sagði Lilja, gæti verið flókið. Á sama tíma og horft væri fram á eitt mesta tekjutap í rekstri sveitarfélaga í manna minnum væri gerð sú krafa að draga ekki saman, heldur þvert á móti að þenja út seglin; halda úti störfum, ekki hækka álögur og viðhalda framkvæmdum til að örva hjól efnahagslífsins. „Þetta getur verið ansi snúið verkefni og það er hreinlega ekki í boði að leggja árar í bát,“ sagði Lilja en minnti á að þetta væri tímabundin ógn og tímabundin ástand. Hún brýndi því þingfulltrúa til að snúa vörn í sókn. Nú væri tækifæri fyrir sveitarfélögin á Vesturlandi til að sýna hvað í þeim býr og að þau gætu staðið saman sem ein heild til að takast á við fjárhagslega erfiðleika og leita markvissra leiða til að sporna við neikvæðum efnahagsáhrifum. Stjórn SSV samþykkti á fundi sínum á fimmtudag að ráðast í verkefni sem Vífill Karlsson, hagfræðingur hefur unnið tillögu að. Það snýst um þrennt. Í fyrsta lagi verða fjármál sveitarfélaganna skoðuð ofan í kjölinn, greint hvernig megi bregðast við skerðingu á tekjum og hvernig megi lækka kostnað fjárfrekra málaflokka án þess að skerða þjónustuna og kannað hvert skuldaþol sveitarfélaganna sé.

Í öðru lagi verði horft til íbúa og hvernig þeir upplifa þjónustu sveitarfélaga. Niðurstöður nýrrar íbúakönnunar SSV verða nýttar í þeirri vinnu. Ætlunin er að komast að því hvaða búsetuskilyrði eru íbúum algerlega nauðsynleg og hver hins vegar geta fælt íbúa frá.

Í þriðja lagi er litið til atvinnulífsins og hvaða tækifæri Vesturland hefur til að sækja fram þar, skapa störf og skapa grunn sem er mikilvægur fyrirtækjum til að vaxa og dafna, hvernig styðja megi við atvinnulífið beint og óbeint.

Opinberum störfum í landshlutanum fjölgi

Störf án staðsetningar eru sérstakt þema haustþings SSV að þessu sinni, en samkvæmt nýjum Hagvísi SSV eru hlutfallslega hvergi færri opinber störf á vegum ríkisins en á Vesturlandi. Landshlutinn er þvert á móti sá landshluti þar sem þeim opinberum störfum hefur fækkað einna mest. „Við viljum snúa þessari þróun við og hvetjum stjórnvöld til að staðsetja störf og starfsemi hér, auk þess sem við teljum að með fjölgun þeirra starfa sem auglýst eru án staðsetningar muni atvinnulíf á Vesturlandi styrkjast,“ sagði Lilja og vísaði til þess að undanfarið hefðu orðið til samvinnurými þar sem frumkvöðlar, einyrkjar og lítil fyrirtæki gætu vonandi fengið aðstöðu og annars staðar í landshlutanum væri verið að undirbúa slík rými. „Með reynslu og þekkingu að leiðarljósi, með áherslu á nýsköpun og fjölbreytni, byggjum við upp störf til framtíðar. Störf sem eru ekki háð sérstökum efnahagslegum skilyrðum eða ákveðinni staðsetningu. Eins er mikilvægt að stuðla að því að allar okkar helstu atvinnugreinar eins og landbúnaður, iðnaður, sjávarútvegur, ferðaþjónusta og fleiri dafni á nýjan leik. Í öflugum og víðtækum stuðningi við atvinnulífið í víðu samhengi felst viðspyrnan og það er okkar að snúa þessu við,“ sagði Lilja Björg Ágústsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir