Steyptu plan undir útiþvottastöðina

Félagsmenn í Neista, félagi slökkviliðsmanna í Borgarbyggð, steyptu síðdegis í gær plötu undir væntanlega þvottastöð sína. Á planinu verður komið upp saunatunnu, pottum og útisturtu. Þar munu slökkviliðsmenn eignast aðstöðu til að hreinsa af sér sót og reykjarlykt eftir löng og ströng útköll. Planið er steypt meðfram norðurhlið slökkvistöðvarinnar við Sólbakka í Borgarnesi. Verður hurðargat gert þannig að innangengt verði í slökkvistöðina.

Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns er um einkaframtak slökkviliðsmanna að ræða, en þeir hófu söfnun fyrir saunatunnu fyrr á þessu ári og fengu afar góðar viðtökur úr samfélaginu. Nú styttist því í að hægt verði að koma búnaðinum á staðinn og slökkviliðsmenn komið tandurhreinir og ilmandi heim til sín eftir slökkvistörf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir