Frá Stykkishólmi. Ljósm. úr safni/ sá.

Jafnvægi komið á eftir hópsmit í Stykkishólmi

Eins og áður hefur verið greint frá kom upp hópsmit Covid-19 í Stykkishólmi seint í septembermánuði þegar sjö íbúar greindust með kórónuveiruna. Fjöldi íbúa fór í sýnatöku dagana á eftir og í kjölfar þeirra greindust örfáir til viðbótar. Undir mánaðamótin síðustu voru 13 manns í einangrun í Hólminum og 20 í sóttkví. Gripið var til sérstakra ráðstafana innanbæjar til að reyna að bregðast við ástandinu og frá mánaðamótum hefur ört fækkað í sóttkví og þeir sem smituðust hafa einn af öðrum lokið einangrun undanfarna viku. Þegar þessi orð eru rituð, síðdegis á mánudaginn 12. október, voru þrír í einangrun í Stykkishólmi og tveir í sóttkví. Sjö luku einangrun dagana fyrir og um síðustu helgi. „Það virðist vera komið jafnvægi á þetta og þróunin hefur verið mjög jákvæð,“ segir Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri í samtali við Skessuhorn á föstudag. Hann tekur þó skýrt fram að Hólmarar fari enn að öllu með gát, því á sama tíma og veiran hefur verið í rénun í Hólminum hefur hún sótt í sig veðrið á landsvísu. „En það er ánægjulegt hvernig til tókst hjá okkur og þessar aðgerðir sem við fórum í virðast hafa skilað sér,“ segir Jakob.

Í kjölfar hópsmitsins var í samráði við sóttvarnaryfirvöld gripið til sérstakra varúðarráðstafana í Stykkishólmi, sem gengu lengra en þær sóttvarnarreglur sem almennt voru í gildi á landinu á þeim tíma. „Annars vegar sneru þær að skipulagi á starfsemi stofnana bæjarins, svo sem hólfaskiptingu og aðgangstakmörkunum þar, og hins vegar að því að hvetja fólk til að huga vel að sóttvörnum og hópamyndun,“ segir Jakob. „Mikil samstaða var í Stykkishólmi og íbúar tóku á þessu sem ein heild,“ segir hann.

Samheldið átak

Aðspurður kveðst hann telja auðveldara að ráðast í átak sem þetta í smærri samfélögum en þeim stærri. „Samstaða litlu samfélaganna er oft sterkari heldur en í þeim stærri. Samheldnin og nándin gerir það að verkum að samstaðan er meiri og allir vinna saman að sama markmiði. Í stærri samfélögum verður nándin aldrei eins mikil og það myndast ekki sami samhugur,“ segir bæjarstjórinn og bætir því við að íbúar í Stykkishólmi eigi sérstakt hrós og þakkir skildar fyrir það hvernig tekið var á málunum. „Íbúarnir og ekki síst starfsfólk Stykkishólmsbæjar tók mjög ábyrga afstöðu í þessum málum. Sem dæmi get ég nefnt starfsfólk dvalarheimilisins, sem hefti mikið eigið frelsi heima við og tók ótrúlega ábyrga afstöðu utan vinnutíma, gætti þess að fara ekki neitt og umgangast enga utan eigin heimilis og vinnustaðarins,“ segir Jakob. „Það hefur hreinlega verið frábært að fylgjast með því hvað fólk hefur verið samheldið í þessu átaki, að sjá alla leggjast á eitt og sýna ábyrgð, bæði íbúa og starfsfólk bæjarins,“ segir Jakob bæjarstjóri að endingu.

Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi. Ljósm. úr safni/ arg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir