Ljósm. úr safni/ mm.

Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar er stofnun ársins

Aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar er stofnun ársins 2020 í flokki minni stofnana bæjarfélaga, sem telja 50 starfsmenn eða færri. Valið á stofnun ársins var tilkynnt í gegnum streymi í gær, miðvikudaginn 14. október, en viðurkenningarnar eru veittar stofnunum sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna í könnun Sameykis.

Könnunin náði til um tólf þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði, að því er fram kemur á vef Sameykis. Markmiðið með því að velja fyrirmyndarstofnanir á hverju ári er að hvetja stjórnendur til að halda vel um starfsmannamálin og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsfólks á vinnustöðum.

Sem fyrr segir var aðalskrifstofa Akraneskaupstaðar hlutskörpust að þessu sinni í valinu á stofnun ársins í flokki minni stofnana bæjarfélaga, en skrifstofan hefur hafnað í öðru sæti í valinu undanfarin tvö ár. Í valinu á fyrirmyndarstofnunum bæjarfélaga 50 starfsmenn eða fleiri skipaði Norðlingaskóli sér í efsta sætið.

Í flokki ríkis og sjálfseignarstofnana varð Nýsköpunarmiðstöð Íslands valin stofnun ársins af stærri stofnunum, en Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum í hópi minni stofnana.

Líkar þetta

Fleiri fréttir