Setið við samningaborðið. Ljósm. Vilhjálmur Birgisson.

Skrifað undir kjarasamning starfsmanna Norðuráls

Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Verkalýðsfélags Akraness og Norðuráls í gærkvöldi, eftir tíu mánaða samningaviðræður. Nýr kjarasamningur er afturvirkur til ársbyrjunar og munu vaktmenn eiga rétt á greiðslu vegna afturvirkninnar sem nemur 6,9% af heildarlaunum frá 1. janúar síðastliðnum.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir á Facebook-síðu sinni að hann sé afar sáttur með niðurstöðuna. Helsta markmiðið hafi verið að tryggja starfsfólki Norðuráls sömu launahækkanir og kveðið er á um í lífskjarasamningnum. Það hafi tekist.

Heildarlaun vaktmanns á byrjunartaxa munu nema 686 þúsund krónum á mánuði, sem er 43 þúsund kóna hækkun. Heildarlaun vaktmanna með öllu sem er á tíu ára taxta munu nema 825 þúsund krónum skv. nýjum kjarasamningi og hækkar hann í launum um 52 þúsund krónur á mánuði, að því er Vilhjálmur greinir frá.

Líkar þetta

Fleiri fréttir