Tölvugerð mynd af nýjum leikskóla í Skógahverfi. Teikning af vef Akraneskaupstaðar.

Nýtt Garðasel mun rísa í Skógahverfi fyrir næsta haust

Leikskólinn Garðasel á Akranesi birti í gær tölvugerða mynd af nýjum leikskóla á Facebook síðu sinni. Leikskólinn er hannaður sem sex deilda skóli en með möguleika á stækkun í átta deildir ef þarf. Í tilkynningu með myndinni segir m.a.: „Sérstaklega mikil og góð vinna hefur farið fram um stærð og fyrirkomulag rýma og metnaður í allri hönnun af hálfu arkitekta og bæjarins. Tvær deildir og vinnurými kennara og aðstaða eru komin á aðra hæð og úti- leikrými á hluta af þakinu. Skábraut af deildum á annarri hæð út á lóðina þar sem tillaga er um rennibraut að hluta og undir skábrautinni eru ma. geymslur en þessi hönnun er að búa til skjól á lóðinni. Miðrými/salur í skólanum mun gefa honum flotta mynd þar sem lofthæð er mikil og tækifærin mörg. Lyfta er við inngang skólans. Rými barna og starfsfólks hafa verið rýnd vel og mikið lagt upp úr því að gera vel þar.“

Bæjarráð samþykkti á fundi í júní á síðasta ári tillögu starfshóps um að hefja undirbúning að byggingu nýs leikskóla á mótum Álfalundar og Asparskóga í Skógahverfi á Akranesi. Starfshópurinn er nú að ljúka starfi sínu og er gert ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu hins nýja leikskóla hefjist innan tveggja mánaða, að sögn Sævars Freys Þráinssonar bæjarstjóra. Unnið er að hönnun leikskólans og segir bæjarstjórinn að stefnt sé á að útboðsferli vegna verksins verði lokið fyrir áramót. Áætlanir geri ráð fyrir stuttum framkvæmdatíma og að leikskólinn taki til starfa ekki síðar en næsta haust. Jafnframt segir Sævar Freyr að hönnunarvinnu við skólann verði hagað þannig að hægt verði að hefja vinnu við sökkla undir leikskólann þó að endanleg útfærsla hússins liggi ekki fyrir.

Grundaskóli nýtir gamla húsið

Leikskólinn Garðasel, sem nú er staðsettur við hlið Grundaskóla, mun flytjast í hið nýja húsnæði í Skógahverfinu. Núverandi húsnæði Garðasels mun í framhaldinu nýtast Grundaskóla og mæta að einhverju leyti húsnæðisþörf grunnskólans m.a. fyrir frístundaheimili. Miðað við þær úttektir sem hafa verið gerðar þá er ekki æskilegt að hefja rekstur þriðja grunnskólann fyrr en íbúafjöldi nálgast 10.000 manns. Íbúar á Akranesi voru um 7.500 í byrjun ársins en mannfjöldaspá í húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar gerir ráð fyrir að íbúar bæjarins gætu mögulega náð þeim fjölda árið 2030.

Á heimasíðu Akraneskaupstaðar segir m.a. um hinn nýja leikskóla að með byggingu hans sé markmiðið að mæta eftirspurn eftir leikskólaplássum, auka þjónustustig við börn á leikskólaaldri með því að taka yngri börn inn á leikskóla og mæta væntanlegri íbúafjölgun. Jafnframt sé markmiðið að minnka álagið á eldri leikskólum bæjarins með því að fækka börnum á elstu leikskólunum og bæta þannig starfsaðstæður barna og starfsmanna í eldri byggingum leikskólanna.

Staðsetning hins nýja leikskóla í Skógahverfi. Leikskólinn verður staðsettur á svæði S, sem er bleiklitað á teikningunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir