Álver Norðuráls á Grundartanga. Ljósm. úr safni/ kgk.

Breyta í átta tíma vaktakerfi í álverinu eigi síðar 1. janúar 2022

Ákveðið hefur verið að koma á átta stunda vaktakerfi í álveri Norðuráls á Grundartanga. Kerfið verður tekið upp eigi síðar en 1. janúar 2022. Verður breyting vaktakerfisins tilkynnt með minnst sex mánaða fyrirvara. Kveðið er á um breytt vaktakerfi í nýjum kjarasamningi starfsmanna Norðuráls sem undirritaður var í gærkveldi. Að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, var um einhliða ákvörðun fyrirtækisins að ræða. „Þeir telja það vera lýðheilsumál að fara úr tólf tíma kerfi, telja það betra fyrir starfsmenn að starf við slíkt enda er engin stóriðja á Íslandi lengur með tólf tíma kerfi,“ segir Vilhjálmur í samtali við Skessuhorn. „Þetta var krafa og hefur verið krafa í gegnum marga samninga, að taka upp átta tíma kerfi. En núna var það bara þannig, við erum búin að vera í þessum viðræðum í tíu mánuði og allt púðrið fór í að tryggja launabreytingar, en fyrirtækið tilkynnti bara að það hygðist koma þessu kerfi á. Ég geri engar athugasemdir við það,“ segir Vilhjálmur.

Um er að ræða eins vaktakerfi og er við lýði hjá Elkem Ísland. Þar standa vaktmenn sex vaktir á fimm dögum og fá svo fimm daga frí. Tvisvar sinnum á hverri vaktatörn eru svokölluð stutt skipti, það er að segja átta klukkustunda frí á milli vakta. Vilhjálmur segir að vitaskuld séu skiptar skoðanir um málið meðal starfsmanna Norðuráls en bætir því við að hver og einn hafi góðan tíma að meta stöðu sína, þar sem tilkynnt verður um breytinguna með hálfs árs fyrirvara.

Vilhjálmur segir að reynslan hafi verið góð í öðrum fyrirtæjum þar sem þessi leið hafi verið farin. Nefnir hann sem dæmi að mikil ánægja hafi verið með þessa breytingu hjá Fjarðaáli, sem hafi verið síðasta fyrirtækið til að breyta úr tólf tíma vöktum í átta tíma vaktir árið 2015.

Hefur áhrif á launin

Aðspurður segir Vilhjálmur að nýtt átta tíma vaktakerfi muni hafa áhrif á launakjör vaktmanna, sem séu í dag með 26 fasta yfirvinnutíma í hverjum mánuði. „Þetta mun þýða að þegar átta tíma kerfi kemur til framkvæmda vinna menn 36 stundum minna í hverjum einasta mánuði en nú er,“ segir hann. Í dag vinna vaktmenn í Norðuráli 182 stundir í hverjum mánuði en þær verða 145,6 eftir breytingarnar. Þar með fækkar föstum yfirvinnustundum. „En fyrirtækið hefur tilkynnt að þeir skuldbindi sig fyrstu tólf mánuðina til að útvega öllum tvær aukavaktir ef fólk kýs að gera svo, til þess að mæta þessu sem lýtur að því að yfirvinnan dettur niður,“ segir Vilhjálmur. Auk þess sé staðan sú í verksmiðjum eins og álverinu að almennt sé næga vinnu að hafa, vilji menn vinna mikið. Auk þess sýnist Vilhjálmi að ef kerfið tæki gildi 1. janúar 2022 verði laun orðin 20 til 30 þúsund krónum hærri en þau eru í dag. „En þá verða náttúrulega komnar til tvær til þrjár launahækkanir,“ segir Vilhjálmur Birgisson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir