Bygging fjölbýlishúss. Ljósm. úr safni/ kgk.

Líflegur fasteignamarkaður

Enn er mikið líf á fasteignamarkaðnum á Íslandi og meðalsölutími íbúðarhúsnæðis er stuttur, að því er fram kemur í mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar er litið til fjölda íbúða sem teknar hafa verið úr birtingu hjá fasteignasölum, en það gefur góða vísbendingu um sölu fasteigna nánast í rauntíma. Í september síðastliðnum var metfjöldi eigna tekinn úr birtingu, eða 1.117 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, sem bendir til þess að ekkert lát sé á fasteignakaupum landsmanna um þessar mundir. Það er 15% meira en í ágúst og um 54% aukning frá september í fyrra.

Meðalsölutími fasteigna hefur verið sögulega stuttur undanfarna mánuði, einkum á dýrari eignum, en hann er nú 46 dagar að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu en 68 dagar annars staðar á landinu. Ástæðan er meðal annars talin vera sú að óverðtryggðir vextir á íbúðalánum séu í sögulegu lágmarki.

Samfara styttri sölutíma hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu einnig hækkað umtalsvert. Árshækkun á höfuðborgarsvæðinu mældist þannig 4,5% í ágúst miðað við pöruð viðskipti. Þó dregið hafi úr árshækkun frá mánuðinum á undan hefur takturinn legið upp á við frá því í byrjun þessa árs. Árshækkunin í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins mældist 3,9% en annars staðar á landsbyggðinni mældist 2,4% lækkun. Þá tölu verður þó að taka með ákveðnum fyrirvara, þar sem kaupsamningar eru mun færri og íbúðamarkaður mismunandi milli sveitarfélaga. „Árshækkun íbúðaverðs mælist mjög áþekk ef notast er við vísitölu söluverðs eða 4,6% á höfuðborgarsvæðinu, 4,4% í nágrannaveitarfélögum þess en annars staðar á landinu mældist 2,1% hækkun í stað lækkunar eins og þegar miðað er við vísitölu paraðra viðskipta,“ segir í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Samdráttur á byggingamarkaði

Nýjasta talning Samtaka iðnaðarins bendir til þess að mikill samdráttur sé í fjölda íbúða í byggingu, einkum á fyrstu byggingarstigum. Samkvæmt talningunni eru 4.946 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum en þær voru 6.005 í hausttalningunni í fyrra. Þetta samsvarar um 18% samdrætti. Ef fjöldi íbúða á fyrstu byggingastigum er skoðaður, þ.e. að fokheldu, sést að samdrátturinn nemur um 41% frá talningunni síðastliðið haust. Þetta bendir til þess að talsvert færri fullgerðar íbúðir muni koma inn á markaðinn á næstu árum.

Samkvæmt spá Samtaka iðnaðarins gætu um 1.986 íbúðir verið fullgerðar á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum þess á næsta ári og um 1.923 íbúðir árið 2022. Í báðum tilfellum er um að ræða töluverðan samdrátt frá spá samtakanna frá því í september í fyrra. Samkvæmt grunnspá síðustu íbúðaþarfagreiningar HMS, sem gerð var í lok síðasta árs og nær til ársins 2040, þyrfti að byggja um 1.800 íbúðir á hverju ári að meðaltali um allt land til að mæta íbúðaþörf landsmanna, bæði þeirri sem telst í dag óuppfyllt og þeirri sem mun myndast á næstu árum. „Því gæti myndast framboðsskortur ef íbúðafjárfesting heldur áfram að dragast saman og færri nýjar íbúðir fara að koma inn á markaðinn,“ segir á vef HMS.

Líkar þetta

Fleiri fréttir