Frá Grundarfirði. Ljósm. úr safni/ tfk.

Búist við minnst 50 milljóna tekjutapi

Gróflega er áætlað að tekjur Grundarfjarðarbæjar á árinu verði að minnsta kosti rúmum 50 milljónum króna lægri en reiknað var með í fjárhagsáætlun, gróflega áætlað. Mestu munar þar um lækkun á áætluðum tekjum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eða rúmar 30 milljónir króna. Bæjarráð ítrekaði fyrri bókanir sínar og bæjarstjórnar og lýsti yfir vonbrigðum með lækkun tekna úr Jöfnunarsjóði. „Enda standa þær tekjur undir mikilvægri lögskyldri grunnþjónustu sveitarfélagsins,“ segir í bókun bæjarráðs.

Áður hafði bæjarstjórn samþykkt 50 milljóna króna viðauka, einkum fjárfestingu, meðal annars sem viðbrögð við áhrifum Covid-19 faraldursins. „Áætlað tekjutap og viðbótarfjárfesting, umfram upphaflega áætlun, gera því samtals yfir 100 millj. kr. lakari niðurstöðu samstæðunnar (rekstur og fjárfestingar) en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir,“ segir í fundargerð frá síðasta fundi bæjarráðs.

Eftir yfirferð á fjárhagsstöðu og fjárhagsáætlun ársins 2020 lagði ráðið til endurskoðun á rekstrarhlutanum. Með breytingum verði dregið úr rekstrargjöldum bæjarfélagsins, til að mæta rekstrarhalla sem blasir við. Eftir þá yfirferð er áætluð rekstrarniðurstaða A og B hluta bæjarsjóðs um 15 milljónum lakari en upphaflega var gert ráð fyrir. Sú niðurstaða er þó miklum fyrirvörum háð, einkum vegna óvissu um þróun útsvarstekna það sem eftir er ársins.

Bæjarstjórn fjallaði um þessa afgreiðslu bæjarráðs á fundi sínum á fimmtudag. Tillögur um viðauka verða lagðar fram á nóvemberfundi bæjarstjórnar, en samkvæmt yfirliti bæjarráðs er svigrúm til að lækka fjárfestingaáætlun ársins. Bæjarráð og bæjarstjóri munu fylgjast áfram með stöðunni, að því er fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar. Þá samþykkti bæjarstjórn þá tillögu bæjarráðs að héðan í frá verði öll aukning í stöðugildum bæjarfélagsins lögð fyrir bæjarráð til afgreiðslu, jafnvel þó fyrir þeim séu heimildir í fjárhagsáætlun ársins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir