Móta stefnu um gervigreind

Stefnumörkun um gervigreind, sem miðar að því að hámarka samfélagslegan og efnahagslegan bata og lágmarka kostnað og áhættu, er nú til vinnslu innan forsætisráðuneytisins. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur skipað nefnd sem er ætlað að skila tillögum að skýrri framtíðarsýn um hvernig íslenskt samfélag geti unnið með gervigreind öllum til hagsbóta. Nefndinni er ætlað að svara spurningum á borð við: „Hver eru réttindi Íslendinga gagnvart nýrri tækni?, Hvert á hlutverk tækni gervigreindar að vera í íslensku samfélagi? Hvaða gildi á íslenskt samfélag að hafa að leiðarljósi við innleiðingu nýrrar tækni? og Á hvaða vettvangi mun Ísland ræða og leysa álitamál sem koma upp er varða innleiðingu eða notkun nýrrar tækni?“ Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun fyrir Ísland í fjórðu iðnbyltingunni en nefndina skipa einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn og sérfræðiþekkingu er snýr meðal annars að siðfræði, tækni, vinnumarkaði og samfélagslegum breytingum vegna nýrrar tækni. Með stefnunni á að leggja grunn að því að einstaklingar og fyrirtæki geti nýtt og þróað tækni í samfélagslegri sátt.

Nefndina skipa: Lilja Dögg Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu (formaður nefndarinnar), Kolbeinn H. Stefánsson, lektor við Háskóla Íslands, Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, Þorbjörn Kristjánsson, doktorsnemi í heimspeki við Háskólann í Sheffield og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. Nefndin mun skila tillögum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2021.

Líkar þetta

Fleiri fréttir