Frá leik ÍA og KA í efstu deild karla síðastliðið sumar. Ljósm. úr safni/ gbh.

Meirihluti knattspyrnufólks vill blása Íslandsmótið af

Leikmannasamtök Íslands í knattspyrnu sendu síðastliðinn fimmtudag út netkönnun til allra leikmanna í Pepsí Max deildum karla og kvenna. Þar voru leikmenn spurðir hvort þeir vildu blása Íslandsmótið í knattspyrnu af á þessari leiktíð, eða ljúka keppni, í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu. Þetta var gert í framhaldi af því að hertar sóttvarnaaðgerðir voru settar fyrir höfuðborgarsvæðið vegna þriðju bylgju Covid-19 þar sem mælst var til að íþróttastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu yrði aflögð til 19. október.

Niðurstaða könnunnarinnar var sú að meirihluti þeirra sem afstöðu tók vildi stöðva keppni í ljósi ástandsins. 41,4% svöruðu spurningunni játandi, 38,7% neitandi en 19,8% voru hlutlaus. „Niðurstöður könnunarinnar voru á þá leið að erfitt er að hundsa þær,“ segir í frétt Leikmannasamtakanna á Facebook. „Það þarf að eiga sér stað samtal um þær og sjá hvernig megi tryggja öryggi leikmanna enn betur en hefur verið gert, ef að það á að spila áfram yfirhöfuð. Það er ljóst að leikurinn fer ekki fram án leikmanna og því er það gríðarlega mikilvægt að þetta samtal eigi sér stað,“ segir í fréttinni.

Ef mótið yrði slegið af nú, þegar tveimur þriðju þess er lokið, tæki reglugerð KSÍ um Covid-19 við um sætaröðun. Regla um meðalfjölda stiga á hvern leik tæki gildi og það gæti haft áhrif á sæti liðanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir