Sýnataka vegna Covid-19. Ljósm. kgk.

Fimmtíu smit í gær

Alls greindust 50 manns með Covid-19 hér á landi í gær. Af þeim voru 33 í sóttkví en 17 utan hennar. Fimm greindust á landamærunum. Í dag liggja 23 á Landspítala með Covid-19. Af þeim eru þrír á gjörgæslu og þar af einn í öndunarvél.

Á landsvísu eru nú 4.296 í sóttkví en voru 3.916 í gær. Alls eru 1.022 manns í einangrun með kórónuveiruna hér á landi.

Á upplýsingafundi almannavarna nú í morgun svaraði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir því hvers vegna ekki hefði komið til lokunar leik- og grunnskóla. Sagði hann að notuð væri sama nálgun varðandi leik- og grunnskóla og notuð var með góðum árangri síðastliðinn vetur. Upplýsingar frá rakningarteyminu gæfu til kynna að smit væri ekki útbreiddara innan leik- og grunnskólanna nú en var í vetur, flest smit sem kæmu upp í skólum kæmu utan frá. „Að okkar mati hér er engin þörf á að beita hörðum aðgerðum á leik- og grunnskóla, það er líka í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar,“ sagði Þórólfur.

Hann vakti einnig athygli á því hvað myndi að öllum líkindum gerast ef faraldurinn næði meiri útbreiðslu. Ef um 10% þjóðarinnar myndu sýkjast gerðu það um 36 þúsund manns og það gæti gerst á fjögurra til sex vikna tímabili. Þá myndu á bilinu 1.200 til 3.700 manns þurfa að leggjast inn á sjúkrahús, frá 110 til 600 á gjörgæslu og af þeim þyrftu 90 til 350 á öndunarvél að halda. Við slíkar aðstæður gætu allt að 200 látist, miðað við reynsluna hér innanlands til þessa. „Það er ljóst að tiltölulega lítið útbreiddur faraldur, 10%, myndi valda slíku álagi á heilbrigðiskerfið að það myndi bitna á öðrum sjúklingum og valda umtalsverðum samfélagslegum skaða,“ sagði Þórólfur og bætti því við að þetta þyrfti að taka til greina í allri umræðuum sóttvarnaraðgerðir. „Ef mikið yrði slakað á í samfélagslegum aðgerðum myndum við sjá útbreiddari faraldur og töluvert útbreiddari en þessi 10%,“ sagði hann og bætti því við að menn gætu aðeins ímyndað sér ef fara ætti þá leið að reyna að ná hjarðónæmi, en talið er að svo það náist þurfi 60% þjóðarinnar að smitast. „Menn geta bara ímyndað sér ef við sjáum 60% smitast á stuttum tíma hvers lags afleiðingar það myndi hafa í för með sér. Ekki bara fyrir heilbrigðiskerfið, spítalakerfið, heldur samfélagið allt,“ sagði Þórólfur.

Alma Möller landlæknir hafði orð á því að þeir sem hafa mótefni gætu borið veiruna á milli manna, þó þeir væru búnir að veikjast áður. Því hvatti hún þá sem þegar hafa fengið Covid-19 til að fara varlega og sinna sóttvörnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir