Aldís Arna og Ólafur Þór. Myndin er frá í sumar þegar þau héldu fræðsludag á Hvanneyri undir yfirskriftinni: ,,Út út streitunni: Fræðsla- Frelsi – Fjör.“

Sameina Streituskólann og Heilsuvernd

Streituskólinn og Heilsuvernd hafa sameinað krafta sína. Sérfræðingar beggja fyrirtækja hafa starfað að forvörnum og fyrirtækjaráðgjöf í áratugi. Í tilkynningu vegna sameiningarinnar segir að við sameininguna verði til stærri hópur sérfræðinga með breiða menntun og viðtækari reynslu sem sameinast í þverfaglegt teymi. „Starfsemi Streituskólans á Vesturlandi verður óbreytt en sameining þýðir aukinn slagkraftur og enn fleiri tækifæri til þess að gera gagn og láta gott af okkur leiða á Vesturlandi. Við erum líka að fara á fullt í fjarfræðslu og fjarviðtöl. Við í sameiginlegu teymi brennum fyrir heilsuvernd og heilsufarseflingu – því virði þess að vera heill heilsu er ómetanlegt. Sá sem er heill heilsu á sér marga drauma. Sá sem missir heilsuna á aðeins einn draum: Að ná aftur heilsu. Fræðsla og faglegur stuðningur er besta forvörnin gegn streitu og vanlíðan Það er tiltölulega einfalt og ódýrt að verjast streitunni,“ segir Aldís Arna Tryggvadóttir, ICF vottaður markþjálfi og umdæmisstjóri Streituskólans á Vesturlandi.

„Aðgerðir til eflingar mannauðs og heilsu og varnir gegn álagi eru mikilvægar forvarnir fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir og fyrir samfélagið allt. Andleg vanlíðan og veikindi eru með algengari ástæðum fjarveru frá vinnu. Stór hluti slíkra vandamála er vegna álags og streitu. Sjúkleg streita getur einnig valdið líkamlegum heilsubresti. Áhrif veirufaraldursins eru líka mikil og valda áhyggjum og ótta. Því er mjög mikilvægt að beita forvörnum gegn slíkri heilsuvá og margir möguleikar eru til þess. Sérfæðingar Streituskólans og Heilsuverndar fylgja ábendingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um forvarnir og fræðslu og sækja reynslu til streitustofnanna erlendis. Slíkar forvarnir bæta hag og líðan einstaklinga, draga úr hættu á veikindum og auka um leið framleiðni fyrirtækja með því að draga úr veikindafjarveru og veikindanærveru. Sérfræðingar Streituskólans og Heilsuverndar munu veita fræðslu og handleiðslu og ráðgjöf á öllum sviðum vinnuverndar,“ segir í tilkynningunni. Frekari upplýsingar um þjónustu Streituskólans á Vesturlandi og Heilsuverndar á hv.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir