Hótel Húsafell trónir á toppi listans á Vesturlandi yfir þá staði sem innleyst hafa flestar ferðagjafir. Meðfylgjandi mynd tók Tamas, starfsmaður Hótel Húsafells, á einni af gönguleiðunum í nágrenninu. Myndina kallar hann “Autumn fades into winter.”

Rúmur þriðjungur hefur nýtt sér Ferðagjöfina

Frá því að Ferðagjöfin fór í loftið í vor og til dagsins í dag hafa gjafir fyrir tæplega 560 milljónir króna verið nýttar. Það jafngildir því að 112 þúsund manns, eða rúmur þriðjungur þeirra 280 þúsund Íslendinga sem fengu aðgang að þeim, hafa nýtt þennan fimm þúsund krónur ríkisstyrk til kaupa á vöru eða þjónustu innanlands. Tækifæri geta falist í því fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að skapa hvata fyrir almenning að nýta það sem eftir er og ljóst að verulegir fjármunir eru enn í pottinum.

Vinsælast er að nota Ferðagjöfina í gistingu og veitingar á landsvísu. Þau tíu fyrirtæki sem hafa fengið flestar Ferðagjafir í sinn hlut hafa tekið á móti um 170 milljónum króna eða tæpum þriðjungi heildarupphæðarinnar. Fly over Iceland er sá staður sem hefur tekið mest inn, eða 28 milljónir króna. Í september síðastliðnum voru Ferðagjafir fyrir 70 milljónir króna nýttar. Þar af fóru 28 milljónir króna í veitingar, 18 milljónir í gistingu og 16 milljónir í afþreyingu.

Hér á Vesturlandi hafa 42 milljónir verið nýttar. Stærsta einstaka fyrirtækið í landshlutanum, Hótel Húsafell, hefur tekið á móti ferðagjöfum fyrir sjö milljónir króna. Þar á eftir kemur Krauma með sex milljónir, Gelmir ehf. með fjórar milljónir og Sæferðir með þrjár milljónir. Þar í kjölfarið koma Sker restaurant í Ólafsvík, Hótel B-59 í Borgarnesi og Hraunsnef sveitahótel í Norðurárdal. Þess má jafnframt geta að fyrirtæki á borð við Icelandair hótel, Íslandshótel og Olís eru ofarlega á listanum og með starfsemi á Vesturlandi, en eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu og eru því ekki sérgreind í Mælaborði ferðaþjónustunnar.

Inni á vefnum www.ferdalag.is sést hvaða fyrirtæki taka á móti Ferðagjöfinni en alls er hægt að nota hana á um 1.300 stöðum um allt land. Vestlendingar eru hvattir til að nýta ferðagjöfina fyrir næstu áramót.

Líkar þetta

Fleiri fréttir