Kvenfélagskonur í Grundarfirði funduðu í kirkjunni

Þó nú sé búið að herða samkomutakmarkanir að nýju, og lítið verði um fundahöld félagasamtaka á næstunni, náðu konur í Kvenfélaginu Gleym mér ei í Grundarfirði að halda árlegan haustfund sinn í byrjun september. Kynntu þær þar haustdagskrá sem lagt var upp með fyrir kvenfélagskonum enda hafði félagið ekki fundað síðan Covid tímabilið hófst. Hafði stjórn félagsins tekið þá ákvörðun að reyna eftir fremsta megni að halda í hefðbundna dagskrá þrátt fyrir ástandið því mikilvægt væri að huga að félagslega þættinum sem og líðan félagskvenna.

Héldu þær haustfundinn í Grundarfjarðarkirkju þar sem auðvelt var að halda þau fjarlægðartakmörk sem í gildi voru þá. Félagskonur í Gleym mér ei eru 72 með öflugt og fjölbreytt starf. Á haustfundinum var ákveðið að efla svokölluð konukvöld þar sem konur á öllum aldri hittast yfir kaffibolla með handavinnu. Handavinna er þó ekki skilyrði því sumar koma eingöngu á kvöldin til að spjalla. Eru konukvöld þessi haldin einu sinni í mánuði. Einnig var lagt upp með að árlegur haustmarkaður yrði í október og aðventudagurinn yrði haldinn að venju fyrsta sunnudag í aðventu. Venja er einnig að halda jólafund í byrjun desember en ekki er komið á hreint hvernig útfærsla hans verður og mun það helgast af þeim takmörkunum sem í gildi verða þá.

Þó rólegt hafi verið yfir félagsstarfinu þetta árið hafa kvenfélagskonur í Grundarfirði gefið fimm hægindastóla á dvalarheimilið Fellaskjól, sófasett í húsnæði eldri borgara og plokkstangir til Grunnskóla Grundarfjarðar. Vonast kvenfélagskonur í Grundarfirði til að geta staðið fyrir einhverju félagsstarfi í vetur og minna á að starf með kvenfélagi er gefandi og skemmtilegur félagsskapur og þær, sem og aðrar kvenfélagskonur, eru alltaf tilbúnar til að taka á móti nýjum félögum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira