Hliðgrind úr járni. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.

Hliðgrindum stolið í Saurbæ

Bændur í Hvítadal í Saurbæ urðu fyrir óskemmtilegri lífsreynslu á dögunum. Um miðjan dag á miðvikudag fóru þeir að líta til með sláturfé í rétt sem þeir hafa sett upp í girðingu á Máskeldu, en Hvítadalsbændur hafa afnot af þeirri jörð. Var skilið þannig við svæðið að opið var inn í réttina en annars lokað þannig að féð héldist enn innan girðingarinnar. Þegar Hvítadalsbændur vitjuðu svæðisins að nýju morguninn eftir var búið að stela þaðan tveimur hliðgrindum úr járni. „Þá tókum við fyrst eftir þessu, í gærmorgun,“ segir Ragnheiður Pálsdóttir, bóndi í Hvítadal, í samtali við Skessuhorn. Hún segir að þjófurinn hafi tekið grindurnar innan girðingarinnar og lokað henni á eftir sér, þannig að féð færi ekki út. „Það er svo sem ágætt, fyrst hann þurfti endilega að vera að þessu,“ segir hún.

Aðspurð kveðst Ragnheiður ekki muna nákvæmlega hversu mikið hver hliðgrind kosti, en telur að þær kosti á bilinu 30 til 40 þúsund krónur, stykkið. Utan fjárhagstjóns skapar þjófnaðurinn þeim einnig aukna vinnu, því gera þarf við réttina áður en hægt verður að safna fénu í girðingunni saman og senda til slátrunar. „Þannig að það skapast óþægindi af þessu og svo er þetta náttúrulega líka vond tilginninf, að vita til þess að fólk fari um og taki hluti,“ segir hún.

Ragnheiður segir að þau ætli að tilkynna þjófnaðinn til lögreglu, en kveðst þó ekki vongóð um að málið verði leyst og þau fái tjónið bætt. „En viðkomandi getur skilað grindunum ef hann skammast sín án þess að hitta okkur. Þá verðum við bara ánægð með það,“ segir Ragnheiður að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir