Sigurþór Ágústsson formaður Neista í grunninum undir væntanlega saunatunnu, sturtur og potta. Ljósm. mm.

Byggja undir saunatunnu slökkviliðsmanna

Félagar í Neista, félagi slökkviliðsmanna í Borgarbyggð, vinna nú við grunn og sökkla á þeim stað sem reisa á saunatunnu, potta og útisturtu. Í kjölfar gróðureldanna í Norðurárdal í maí síðastliðnum komst hreyfing á umræðuna um nauðsyn þess að slökkviliðsmenn eignuðust saunatunnu til að ná að hreinsa húðina eftir erfið slökkviútköll. Var því tekin ákvörðun í hópi þeirra að hefja söfnun. Að sögn Sigurþórs Ágústssonar formanns Neista gekk söfnunin framar vonum og voru margir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök sem lögðu slökkviliðsmönnum lið. Tunnan hefur því verið keypt og bíður þess að vinnu við grunninn ljúki.

Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í maí síðastliðnum geta slökkviliðsmenn orðið illa súrir og lyktandi eftir langt og strangt slökkvistarf og því ekki húsum hæfir. „Staðreyndin er nefnilega sú að nær ómögulegt er að hreinsa lyktina af sér í venjulegri sturtu eða heitu baði. Maður er jafnvel næstu tvo, þrjá daga að glíma við hálfgerða eitrun í gegnum húðina og líðanin eins og slæm þynnka eftir fyllerí. Það er hins vegar hægt að hreinsa þetta af sér með því að fara í gufubað eða sauna,” sagði Þórður Sigurðsson í samtali við Skessuhorn. „Með því að fara í heitt gufubað er hægt að hreinsa út úr svitaholunum eiturefni, sem jafnvel eru krabbameinsvaldandi, en loða annars við mann í einhverja daga eftir svona slökkvistörf. Sót og reykur getur verið algjör viðbjóður og hvorki okkur né fjölskyldum okkar bjóðandi að koma illa lyktandi og óhreinir heim eftir svona útköll,“ sagði Þórður.

Saunatunnunni, útisturtu og pottum verður nú komið fyrir norðan við slökkvistöðina á Sólbakka í Borgarnesi. Sigurþór formaður Neista fagnar því að aðstaða slökkviliðsmanna muni nú batna. Ekki einvörðungu sé gott að þeir geti farið í góða húðhreinsun eftir útköll, heldur bætir hann því við að ekki sé síður mikilvægt að menn geti hist eftir útköllin og rætt saman. Til dæmis geti útköll á klippibíl slökkviliðsins oft verið erfið og því sé kostur að menn hafi aðstöðu til að slaka á og ræða þá reynslu sem þeir verða fyrir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir