Útflutningur á landbúnaðarvörum tvöfaldaðist í september

Verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi nam alls tæplega 62 milljörðum króna í september síðastliðnum samanborið við rúmlega 50 milljarða í sama mánuði í fyrra. Það er rúmlega 22% aukning í krónum talið á milli ára. Fjallað er um útflutning í nýjasta fréttabréfi SFS. Þar segir að gengi krónunnar spili stóra rullu í þessari aukningu, enda var það rúmlega 13% veikara nú í september en á sama tíma í fyrra. Engu að síður er mikil aukning, eða tæp 6% í erlendri mynt. Þetta má sjá í bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti í vikunni.

Þróunina í september má einkum rekja til tæplega 11% aukningar í verðmætum útfluttra sjávarafurða á milli ára, mælt í erlendri mynt, og ríflega tvöföldunar á útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða. Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða hefur í raun aldrei mælst meira í einum mánuði í krónum talið, en í erlendri mynt er um næststærsta mánuð að ræða. Útflutningsverðmæti þeirra var 4,5 milljarðar króna í september samanborið við 1,9 milljarða í september í fyrra. Það jafngildir aukningu upp á rúm 105% í erlendri mynt. Þetta eru fyrstu bráðabirgðatölur fyrir útflutning í september og einungis hægt að sjá útflutningsverðmæti yfirflokka, eins og landbúnaðarafurða í heild. Sem kunnugt er falla fiskeldisafurðir þar undir og hefur vægi þeirra í ár verið rúm 85% af útflutningsverðmætum landbúnaðarafurða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir