Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Ljósm. úr safni.

Mælist til að helgihald falli niður í október

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, ritaði á sunnudag bréf til presta, djákna, organista, formanna sóknarnefnda og útfararstjóra. Þar mælist hún til þess að opið helgihald falli niður í kirkjum landsins í októbermánuði, vegna Covid-19 faraldursins. Þess í stað verði hugað að því að boða fagnaðarerindið í streymi. Biskup óskar þess jafnframt að kóræfingar falli niður í mánuðinum og hvetur organista og kórstjóra til að halda uppi æfingum í gegnum fjarfundabúnað. Sömuleiðis hvetur biskup til þess að boðaðir fundir, ráðstefnur og þing verði haldin rafrænt, sé það mögulegt, eða frestað ef hægt er.

Barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar verður haldið áfram fyrir börn sem fædd eru árið 2005 eða síðar auk fermingarfræðslu, að teknu tilliti til allra sóttvarnarreglna. Eldri borgara starf kirkjunnar fellur niður í októbermánuði og hvetur biskup presta og djákna til að huga að þeim aldurshópi með símtölum og sálgæslu.

Tuttugu manna samkomutakmarkanir eru sem kunnugt er í gildi í landinu, en meðal undantekninga frá þeim fjöldatakmörkunum eru útfarir, sem miðast við 50 manns. Mælist biskup til þess að þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma vísi frá sér og minnir á að tuttugu manna takmarkanir gildi um aðrar kirkjulegar athafnir, svo sem skírnir og hjónavígslur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir