Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ljósm. Stjórnarráðið.

Gagnrýna ummæli landbúnaðarráðherra

Landssamtök sauðfjárbænda gagnrýna harðlega málflutning Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Alþingi í umræðu um fjármálaáætlun í gær. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Kristján Þór hvernig hann hygðist ætla að bæta kjör bænda og stuðla að betra verði. Því svaraði hann orðrétt: „Ég held að það sé engin goðgá að ætla að menn kjósi af mörgum ástæðum að stunda sauðfjárbúskap. Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtöl við þau, þar sem þeir segja að þetta sé meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu,“ sagði Kristján Þór í ræðustól Alþingis.

Forsvarsmenn Landssamtaka sauðfjárbænda eru óhressir með þessi orð ráðherra. Þykir þeim að með þeim láti ráðherra í veðri vaka að afkoma greinarinnar skipti engu máli, eins og fram kemur í yfirlýsingu á vef samtakanna. Þar segir að samtökin hafi einmitt kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda varðandi aðgerðir sem gætu bætt starfsumhverfi í greininni og ef ráðherra telji að sauðfjárbændur hafi ekki áhuga á afkomu sinni sé hann ekki upplýstur um stöðu greinarinnar. „Landssamtök sauðfjárbænda skora á stjórnvöld að efla landbúnaðarráðuneytið þannig að því sé stýrt af þekkingu og vilja til að starfa að uppbyggingu og eflingu landbúnaðar á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni.

Samband ungra framsóknarmanna hefur sent frá sér yfirlýsingu á Facebook vegna ummæla ráðherra. Þar segir að bændur séu starfsstétt eins og hver önnur, en „ekki lífsstíll eins og landbúnaðarráðherra heldur fram,“ eins og þar er sagt. „Landbúnaður er og hefur alltaf verið þjóðhagslega mikilvæg atvinnugrein sem ekki má vanrækja,“ segir í yfirlýsingu sambandsins. Ungir Framsóknarmenn hafa nýlega lýst yfir vantrausti á landbúnaðarráðherra, eins og greint var hér á vef Skessuhorns fyrr í vikunni, þar sem þeim þykir hann ekki sinna málefnum landbúnaðarins.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur gagnrýnt ráðherra vegna ummælanna. Hún spyr á Facebook-síðu sinni hvort garðyrkju- og kúabændur séu þá ekki bara að þessu líka til að hafa gaman, rétt eins og sauðfjárbændur „Bara litla sæta hobbýið þeirra að framleiða mat fyrir þjóðina og tryggja fæðuöryggi okkar,“ segir Silja Dögg kaldhæðin á Faecbook-síðu sinni.

Eins og fyrr segir var það Þorgerður Katrín sem upphaflega varpaði þeirri spurningu til Kristjáns Þórs hvernig hann hygðist bæta kjör bænda. Hún segist í samtali við RÚV vera undrandi á ummælum landbúnaðarráðherra, þau skorti veruleikatengingu og segir að hann virðist ekki hafa áhyggjur af því að íslenskir bændur hafi hvað slökustu kjörin innan Evrópu. Vissulega sé ákveðin fegurð fólgin í því að ver abóndi en að þeir þurfi líka að lifa. Það sé raunveruleiki sem ráðherra þurfi að horfast í augu við og breyta kerfinu þannig að framlög til landbúnaðarkerfisins skili sér á endanum til bænda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir