Við slökkviliðsbílinn. F.v. Einar Steinþór Traustason stöðvarstjóri í Reykholti, Heiðar Örn Jónsson varaslökkviliðsstjóri, Bjarni Kr Þorsteinsson slökkviliðsstjóri og Sigurþór Ágústsson slökkviliðsmaður og formaður Neista. Ljósm. mm.

Notaður slökkvibíll keyptur í Reykholt

Undir lok síðustu viku fékk Slökkvilið Borgarbyggðar afhentan nýjan, en þó notaðan, bíl í tækjaflotann. Bíllinn er af Scania gerð, árgerð 1990, og hafði verið í notkun á hollenskum herflugvelli. Bíllinn er búinn 12 þúsund lítra tanki og fjögur þúsund lítra dælu (dæluafköst pr. mínútu). Uppi á þaki bílsins er svokallaður mónitor, eða vatnsbyssa sem auðveldar mönnum að glíma við eld úr fjarlægð. Að sögn Bjarna Kr. Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra eru kaupin á þessum bíl til að leysa bráðavanda sem upp kom eftir að bíll í tækjaflotanum bilaði. Verður bíll þessi staðsettur á stöðinni í Reykholti, en eldri bíll sem þar var er úrbræddur og hefur verið dæmdur ónýtur. Í framhaldinu verður tveimur öðrum bílum róterað á milli stöðva. Bíll sem nú er í Reykholti fer á stöðina í Borgarnesi og bíll sem þar er verður hafður á Bifröst. Þar hefur enginn bíll verið undanfarnar vikur eins og skylt er á öllum þéttbýlisstöðum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir