
Malbik á Kjalarnesi uppfyllti ekki kröfur
Vegagerðin vekur í dag athygli á nýútkominni skýrslu um blæðingar í malbiki sem lagt var á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Um er að ræða fimm vegarkafla, þar á meðal á Kjalarnesi þar sem hjón á mótorhjóli létust í árekstri við húsbíl sem kom úr gagnstæðri átt. Hemlunarviðnámsmælingar vegakaflanna, utan eins, sýndu að þeir uppfylltu ekki kröfur Vegagerðarinnar um lágmarks hemlunarviðnám. Þess má geta að þetta eru fyrstu niðurstöður rannsókna og rannsóknum á þessum köflum er ekki lokið. Má því vænta annarrar útgáfu af þessari skýrslu.
Í niðurlagi skýrslunnar segir: „Þær rannsóknir og þau gögn sem fram voru komin, úr framleiðslueftirliti framleiðanda, sýna eindregið að kröfum um holrýmd sem settar eru fram í útboðsgögnum Vegagerðarinnar er ekki fullnægt. Krafa Vegagerðarinnar er sú að holrýmd skuli liggja á bilinu 1% til 3%. Niðurstöður rannsókna á borkjörnum úr vegi sýna að holrýmd sé allt niður undir 0,1% og framleiðsluniðurstöður sýna holrýmd 0,1% upp í 0,5%. Hemlunarviðnámsmælingar kaflanna, utan eins, sýna að þeir uppfylla ekki kröfur Vegagerðarinnar um lágmarks hemlunarviðnám, 0,5.“ Skýrslan í heild er birt á heimasíðu Vegagerðarinnar.