Veiran er síst vægari en í fyrri bylgjum hennar

Upplýsingafundir Almannavarna vegna Covid-19 hafa nú verið færðir til klukkan 11 árdegis á mánudögum og fimmtudögum í stað kl. 14. Þar eru í dag Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Þau fara á fundinum yfir stöðu mála varðandi framgang veirufaraldursins. 59 smit greindust síðastliðinn sólarhring og þar af 34 hjá fólki sem ekki var í sóttkví. Dreifing er því víða í samfélaginu. Þórólfur Guðnason áréttaði að veiran sé ekki vægari en hún var í fyrri bylgjum faraldursins og hún er í vexti með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið. Hvatti hann til að landsmenn sýndu samstöðu, því einungis með þeim hætti náist árangur við að kveða faraldurinn niður á fullnægjandi máta.

Þórólfur segir að nýjar hertar aðgerðir séu íþyngjandi en ekkert annað hafi verið í stöðunni en að setja þær. Veiran hefur greinst í öllum landshlutum undanfarið og því gilda sömu reglur á landsvísu. Aðgerðir nú eru í anda þeirra aðgerða sem gripið var til síðasta vetur, en hófstilltari. Biðlaði hann til fyrirtækja og samtaka að halda að sér höndum við að biðja um undanþágur og áréttaði að það er heilbrigðisráðuneytið sem veitir undanþágur frá þeim aðgerðum sem nú gilda.

Alma gat þess að farið er að gæta að óþreyju í garð yfirvalda vegna viðbragða. Sagði hún þekkt að farsóttarþreyta kæmi upp í ástandi sem þessu. Því séu ýmsir sem gagnrýni hertar aðgerðir sem órökréttar. Sagði hún þrautseigju og þolinmæði það sem mestu skipti.

Líkar þetta

Fleiri fréttir