Kornþurrkunin í Laxárholti er inni í gömlu fjóshlöðunni. Ljósm. mm.

Mikið tjón þegar kornþurrkun í Laxárholti brann

Eldur kom upp í þurrkstöð fyrir korn á bænum Laxárholti á Mýrum í morgun. Mannskapur og búnaður frá öllum stöðvum Slökkviliðs Borgarbyggðar var kallaður á staðinn og sömuleiðis óskað eftir aðstoð frá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar sem sendi bíl með One-Seven froðubúnaði og fjóra menn. Slökkvistarf gekk vel en aðstæður voru erfiðar þar sem eldurinn var í lokuðu sílói með þurru korni. Erfitt er fyrir slökkviliðsmenn að athafna sig við slíkar aðstæður. Rjúfa þurfti gat á þak hússins en reykköfunarmenn voru einnig sendir inn í húsið.

Eldsins varð vart klukkan 10 í morgun. Unnsteinn Jóhannsson bóndi í Laxárholti hóf þegar slökkvistörf og náði hann, meðan beðið var slökkviliðs, að koma í veg fyrir að eldur næði að læsa sig í sperrur á hlöðunni þar sem þurrkbúnaðurinn er til húsa. Talsverður eldur var í korninu, en um átta tonn af korni voru í sílóinu og því mikla orku þar að finna. Þegar búið var að slökkva eldinn var gat rofið á geyminn og glóðheitu korninu hleypt út. Sú vinna var enn í gangi um klukkan 14 þegar ljósmyndari Skessuhorns var á ferðinni.

Ljóst er að tjónin í brunanum er talsvert. Kornið sem í sílóinu er ónýtt en Unnsteinn bóndi segir þó mesta tjónið felast í að þurrkbúnaðurinn er að líkindum ónýtur. Töluverð kornrækt er í Laxárholti og reiknar Unnsteinn með að aka með það korn sem eftir er af uppskerunni til annarrar þurrkstöðvar, en næsta kornþurrkun er á Hurðarbaki í Reykholtsdal þannig að um töluverða vegalengd er að ræða.

Þessi mynd var tekin þegar að mestu var búið að slökkva eldinn í sílóinu. One-Seven froða gagnaðist best við slökkvistarfið.

Barist við eldinn í sílóinu. Ljósm. sþe.

Rjúfa þurfti gat á hlöðuþakið til að komast að eldinum í sílóinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir