Fulltrúar ríkis og sveitarfélaganna sem standa að fyrirtækinu Betri samgöngur ohf. Ljósm. Stjórnarráðið.

Betri samgöngur ohf. stofnað

Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu; Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, hafa stofnað opinbert hlutafélag sem ætlað er að sinna uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur félagsins, sem ber heitið Betri samgöngur ohf., er að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgönguinnviða í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem fól í sér sameiginlega framtíðarsýn og fjárfestingar í samgönguframkvæmdum til fimmtán ára.

Alþingi samþykkti í sumar lög sem heimiluðu stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og samþykkti þingið sömuleiðis samgöngusáttmálann, sem er hluti af samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034. Nýja félagið mun hafa yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgangna og fjármögnun þeirra. Ríkið mun eiga stærstan hlut í félaginu, eða 75%, en sveitarfélögin sex ráða yfir fjórðungs hlut sem skiptist eftir stærð þeirra. Félaginu er ekki ætlað að skila arði og er hluthöfum óheimilt að taka arð út úr félaginu. Félagið mun einnig, með sérstökum samningi, taka við landi ríkisins að Keldum eða öðru sambærilegu landi og þeim réttindum sem því tengjast og sjá um þróun þess í samvinnu við viðeigandi skipulagsyfirvöld með það að markmiði að hámarka virði landsins og uppbyggingu þess. Afkoma af þróun landsins verður nýtt til að fjármagna framkvæmdir og rekstur félagsins.

Markmiðið samgöngusáttmálans sem Betri samgöngur ohf byggja á var að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga. Heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á svæðinu á tímabilinu samkvæmt sáttmálanum er 120 milljarðar króna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir