Átta mánaða fangelsi og ævilöng svipting

Karlmaður hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt vegna fíkniefnaaksturs. Dómur þess efnis var upp kveðinn í Héraðsdómi Vesturlands 25. september síðastliðinn. Maðurinn var fundinn sekur um að hafa í apríl 2019 ekið bifreið um Borgarnes undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk þess að hafa verið sviptur ökuréttindum, uns lögregla stöðvaði för hans. Ákærði játaði sök og er játning hans studd sakargögnum.

Fram kemur í dómnum að maðurinn hafi frá árinu 2000 gengist undir fimm dóma og tvær lögreglustjórasáttir, meðal annars fyrir brot á umferðarlögum. Var þetta í sjötta sinn sem hann gerðist sekur um sviptingarakstur. Síðast var maðurinn dæmdur í fimm mánaða fangelsi og sviptur ökurétti ævilangt. Frá þeim tíma hefur hann bæði gengist undir lögreglustjórasátt vegna sviptingaraksturs og fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptingarakstur.

Að þessu virtu taldi dómstólnum hæfileg refsing mannsins vera átta mánaða fangelsi. Var hann enn fremur sviptur ökurétti ævilangt og gert að greiða sakarkostnað vegna málsins, samtals rúmar 105 þúsund krónur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir