Hægt væri að hefja framkvæmdir við stækkun steypuskála Norðuráls eftir nokkrar vikur ef vilyrði um samkeppnishæft raforkuverð fengist. Ljósm. úr safni/ kgk.

Hvetur stjórnvöld til að efla gjaldeyrisskapandi iðnað

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur stjórnmálamenn til að efla gjaldeyrisskapandi iðnað. Bendir hann á að það sé farsælasta og fljótvirkasta leiðin til að þjóðin vinni sig hratt og örugglega út úr fjárþrengingum vegna Covid-19 faraldursins. „Við einfaldlega vinnum okkur út úr tekjufallinu með því að efla og styðja við frekari gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar,“ skrifar hann í nýlegum pistli. „Mér finnst að stjórnmálamenn verði að svara því af hverju ekki er gengið í að tryggja að Norðurál geti orðið að ósk sinni að ráðast í stækkun á steypuskála fyrirtækisins, en það liggur fyrir að um 14 milljarða fjárfestingu er að ræða sem myndi skapa um 100 störf á byggingartímanum, 40 varanleg störf og annan eins fjölda afleiddra starfa. Það liggur fyrir að Norðurál getur byrjað á þessum framkvæmdum innan nokkurra vikna. Eina sem þarf er raforkusamningur til 10 til 20 ára og það virðist ekki vera hægt að semja við Landsvirkjun,“ skrifar Vilhjálmur.

Eins og fram kom í frétt Skessuhorns nú síðsumars telur Gunnar Guðlaugsson forstjóri Norðuráls að forsendu þess að stækka steypuskála verksmiðjunnar, og auka þannig virði framleiðslunnar, að nýir samningar náist við Landsvirkjun um raforkukaup til allt að 20 ára, á sambærilegum kjörum og meðalverð til stóriðjunnar var á síðasta ári. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar var meðalverð til stóriðjunnar um 23 dalir á megavattsstund á síðasta ári. Núverandi raforkusamningur álversins, sem tengdur er raforkuverði á Nordpool – markaðnum, rennur út á næsta ári. Þannig er nú lag fyrir stjórnvöld, eiganda Landsvirkjunar, að bregðast við.

Orkan er að tapast

Vilhjálmur Birgisson bendir sömuleiðis á að raforkumarkaðurinn sé þannig um þessar mundir að uppundir 150 MW eru að renna ónotaðar út úr kerfinu vegna þess að eftirspurn hefur dregist saman. Nægir að nefna að álverið í Straumsvík er keyrt á 85% afköstum og PCC á Bakka er með slökkt á báðum ofnum sínum. Einnig hafa gagnaverin dregið úr raforkukaupum vegna þess að raforkuverð Landsvirkjunar er ekki lengur samkeppnishæft. „Það má áætla að vegna þessa samdráttar á sölu á rafmagni séu um fimm milljarðar að tapast á ári. Ég bara skil ekki af hverju er ekki gengið frá því að Norðurál geti hafið 14 milljarða króna fjárfestingu. Meina stjórnvöld kannski ekkert með að skapa þurfi atvinnu og framleiða meira,“ spyrn Vilhjálmur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir