Katrín boðar umræður um auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Í stefnuræðu sinni við upphaf Alþingis síðastliðinn fimmtudag færði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í tal breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Sagði hún að Alþingi fengi í vetur tækifæri til að takast á við ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir, sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, verði þjóðareign. Sagði hún að um þetta hafi verið deilt allt frá því snemma á sjöunda áratug 20. aldar. „Þingmenn úr ólíkum flokkum hafa gert þetta mál að sínu. Og nú fær Alþingi tækifæri til að stíga skrefið og setja slíkt ákvæði, skýrt og knappt, inn í stjórnarskrá til að tryggja réttlæti til framtíðar. Ásamt fleiri ákvæðum um umhverfis- og náttúruvernd, íslenska tungu og táknmál, forseta og framkvæmdavald, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði,“ sagði hún í ræðu sinni.

Sagði Katrín að Alþingi geti ákveðið að nýta þetta tækifæri til að sýna að þessi samkunda geti tekist á við stór og mikilvæg mál og breytt stjórnarskrá með skynsamlegum hætti með almannahagsmuni að leiðarljósi. „Ég vona sannarlega að þingið standist þetta próf og taki hina efnislegu umræðu um málið. Ég vil ekki að þetta mál festist í hjólförum liðinna ára og áratuga. Við höfum nú tækifæri til að horfa til framtíðar og taka góðar ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir,“ sagði forsætisráðherra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir