Ljósm. úr safni/ Landvernd.

Framkvæmdaleyfi Teigsskógarleiðar stendur

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála staðfesti í gær framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Vestfjarðavegar eftir svokallaðri Þ-H leið, sem meðal annars liggur um Teigsskóg og þverar Þorskafjörð, Gufufjörð og Djúpafjörð. Að mati nefndarinnar færði sveitarstjórn Reykhólahrepps ásættanleg rök fyrir því að þeir samfélagslegu hagsmunir sem felist í auknu umferðaröryggi vegfarenda um sveitarfélagið til frambúðar, feli í sér brýna nauðsyn. Um almannahagsmuni sé að ræða og fjölmargir kostir hafi verið skoðaðir áður en ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi var tekin.

Tvær kærur bárust vegna framkvæmdaleyfisins; Landvernd kærði ásamt landeigendum á Hallsteinsnesi og Gröf, en einnig barst kæra frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Fuglaverndarfélagi Íslands. Lengi hefur verið deilt um legu Vestfjarðavegar, ekki síst vegna áhrifa hennar á Teigsskóg, sem er stærsti samfelldi birkiskógur Vestfjarða, en einnig vegna áhrifa vegagerðar um svæðið á leirur, dýralíf og lífríki fjarðanna sem verða þveraðir.

Kærurnar voru margþættar en báðar sammála um að Vegagerðin hefði þvingað Teigsskógarleið upp á sveitarstjórnina. Það hafi hún gert með því að segja að ef dýrari leið en Þ-H leið yrði valin myndi aukakostnaður vegna vegagerðar falla á sveitarfélagið.

Í úrskurði nefndarinnar segir engum blöðum um það að fletta að brýn þörf sé á bættum samgöngum á svæðinu. Nefndin bendir einnig á að ef önnur þeirra leiða sem til álita hafi komið hefði verið valin, þá hefði sömuleiðis verið farið um land annarra landeigenda. Mismunand leiðarval myndi þannig alltaf leiða til íþyngjandi ákvörðunar gagnvart einhverjum landeigendum. Því verði ekki séð að sjónarmið um meðalhóf gagnvart kærendum, umfram aðra landeigendur, hafi átt að standa í vegi fyrir ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi vegna Þ-H leiðar.

Niðurstaða nefndarinnar var sú að ákvörðun sveitarstjórnar hafi ekki verið háð þeim efniðs- og formmörkum að hægt sé að ógilda hana. Kröfu um ógildingu framkvæmdaleyfisins var því hafnað og leyfið stendur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.