Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp næsta árs. Ljósm. Stjórnarráðið.

Gert ráð fyrir 264 milljarða halla

Fjárlagafrumvar næsta árs var kynnt í dag

Gert er ráð fyrir 264 milljarða króna halla á ríkissjóði á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs sem Bjarni Benediktsson kynnti nú í morgun. Skattar verða 52 milljörðum lægri en annars hefði orðið, vegna ákvarðana stjórnvalda. „Ríkisfjármálum verður áfram beitt af fullum þunga til að verja störf og skapa viðspyrnu, en gert er ráð fyrir að áhrif heimsfaraldurs kórónuveirunnar á ríkissjóð verði neikvæð um 192 milljarða króna á næsta ári,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að góð staða ríkissjóðs við upphaf faraldursins hafi gefið stjórnvöldum tækifæri til að bregðast kröftuglega við afleiðingum hennar með stuðningi við fólk og fyrirtæki í vanda. Fjárlagafrumvarpið endurspegli þá ætlun stjórnvalda að vinna bug á erfiðum aðstæðum og beita ríkisfjármálunum af fullum þunga. Ekki verða gerðar kröfur um aukið aðhald til málefnasviða og verða öll helstu tilfærslukerfin varin. Til að sporna gegn aukningu útgjalda er þess gætt að ný aukin útgjöld takmarkist við mótvægisaðgerðir vegna Covid-19 faraldursins.

Versnandi afkoma

Afkoma ríkissjóðs versnar um 192 milljarða á næsta ári vegna beinna efnahagsaðgerða sem rekja má til faraldursins og ákvarðana til að sporna við afleiðingum hans. Þar vegur þyngst samdráttur í skatttekjum, vegna minni umsvifa, en hann nemur um 89 milljörðum. Einnig minnka tekjur ríkissjóðs vegna aðgerða á borð við endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu, flýtingu á lækkun bankaskatts og niðurfellingu gistináttaskatts. Samtals kosta þær aðgerðir ríkissjóð um 17 milljarða. Þá er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna atvinnuleysisbóta hækki um 23 milljarða. Útgjöld vegna ýmissa mótvægisaðgerða eru áætlum um 35 milljarðar, en þar má nefna fjárfestingar- og uppbyggingarátak, eflingu háskóla- og framhaldsskólastigs til að bregðast við atvinnuleysi og auknar endurgreiðslur til rannsóknar- og þróunarstarfs. Þá er gert ráð fyrir því að arðgreiðslur lækki um nálægt 27 milljarða. Allt í allt er búist við 264 milljarða króna halla ríkissjóðs í árslok 2021.

Velferðarkerfið vegur þyngst

Framlög til heilbrigðiskerfisins aukast um rúmlega 15 milljarða á næsta ári, að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum, en þar af eru framlög til byggingar nýs Landspítala tæpir sjö milljarðar. „Meðal helstu áherslna á kjörtímabilinu er að bæta þjónustu óháð efnahag og búsetu, lækka greiðsluþátttöku sjúklinga og byggja hjúkrunarheimili,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

Framlög til félags-, húsnæðis og tryggingamála vega þyngst á gjaldahlið fjárlaganna, eða 265 af heildarframlögum. Þar koma til mál eins og lenging fæðingarorlofs, hækkun frítekjumarks atvinnutekna aldraðra og auknin stofnframlög til byggingar leiguhúsnæðis fyrir tekjulága, auk laga um hlutdeildarlán sem taka gildi 1. október næstkomandi.

Gert er ráð fyrir að framlög til mennta- og menningarmál aukist um tæpa sex milljarða á næsta ári, þar af um tvo milljarða vegna áætlaðrar fjölgunar nemenda vegna áhrifa Covid-19, ásamt því að tekið er mið af nýsamþykktum lögum um Menntasjóð námsmanna. Þá verður einum milljarði varið til háskólastigsins, í samræmi við stefnumörkun um að Ísland nái meðaltali OECD um fjármögnun háskólastigsins. „Þá hefur menntakerfið verið eflt bæði á framhalds- og háskólastigi á yfirstandandi kjörtímabili, auk þess sem unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun um máltækni.“

Áætluð framlög til nýsköpunarmála eru 25 milljarðar, sem er liðlega fimm milljarða hækkun samanborið við áætluð útgjöld þessa árs. Að auki hafa ívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna- og þróunarstarfs verið ríflega þrefaldaðar frá árinu 217, að því er fram kemur í tilkynningunni. Gert er ráð fyrir að sá fjárstuðningur hækki í rúmlega sjö milljarða í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þá aukast framlög til upplýsingatækniverkefna umsem nemur 2,3 milljörðum króna.

Lægri skattar

„Skattar verða 34 ma.kr. lægri á næsta ári en þeir hefðu orðið ef ekki hefðu komið til ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um skattbreytingar frá árinu 2017. Sérstakar aðgerðir vegna faraldursins lækka að auki tekjur ríkissjóðs um rúmlega 17 ma.kr. á næsta ári og því verða skattar á árinu 2021 tæpum 52 ma.kr. lægri en þeir hefðu orðið án breytinga frá árinu 2017,“ segir á vef Stjórnarráðsins. Þar segir enn fremur að skattbreytingar undangenginna ára hafi falið í sér endurkoðun á skattkerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur tekjulægri hópa, bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins og vinna að framgangi umhverfismarkmiða ríkisstjórnarinnar.

Tryggingagjald hefur verið lækkað á kjörtímabilinu og verður skattbyrði fyrirtækja átta milljörðum lægri á næsta ári en ella hefði orðið. Þá er ótalin fyrirhuguð lækkun gjaldsins til að mæta áhrifum launahækkana Lífskjarasamningsins. Frítekjumark erfðafjárskatts hefur verið hækkað en áætlað er álögur muni við það minnka um 500 milljónir á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að auknir skattstyrkir til félaga sem starfa í þágu almannaheilla kosti ríkissjóð um 2,1 milljarð.

Auknar fjárfestingar

Framlög til fjárfestinga árið 2021 nema um 111 milljörðum króna. Er það há tala í sögulegu samhengi. Stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala, en gert er ráð fyrir tæplega tólf milljarða framlagi til framkvæmdanna á næsta ári. Framlög til ýmissa fjárfestinga aukast um 36 milljarða frá fjárlögum þessa árs. „Aukningin á milli ára skýrist að miklu leyti af mótvægisráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og þeirri stefnumörkun stjórnvalda að styðja við hagkerfið þar til atvinnulífið hefur tekið við sér, m.a. með sérstöku fjárfestingarátki í innviðum, hugviti og þekkingu,“ segir í tilkynningunni, en fjárfestingar- og uppbyggingarátakið nemur um 27,2 milljörðum króna á árinu 2021.

Til lengri tíma litið

Helsta áskorun stjórnvalda á tímabili fjármálaáætlunar 2021 til 2025 er að snúa við miklum hallarekstri hins opinbera, vegna efnahagsáhrifa kórónaveirunnar og að koma böndum á skuldasöfnun. „Við aðstæður sem þessar felur hallareksturinn ekki í sér þjóðhagslegt tap. Fénu er varið til aðstyrkja fjárhagslega stöðu einstaklinga og fyrirtækja og til að koma í veg fyrir að verðmæti og störf tapist með varanlegum hætti,“ segir í tilkynningunni.

Samanlagður halli áranna 2020 og 2021 gæti orðið um 600 milljarðar og skuldir gætu vaxið úr 28% af vergri landsframleiðslu í árslok 2019 í 48& árið 2021. Telur ríkisstjórnin mikilvægt að setja raunhæft markmið um að stöðva hækkun skulda hinsn opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætluninnar og rjúfa þannig vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar svo endurheimta megi styrka fjárhagsstöðu hins opinbera. Til að það náist þarf að ráðast í um 37,5 milljarða króna afkomubætandi ráðstafanir á ári frá 2023 til 2025, að því er fram kemur í tilkynningunni. Nemur það tæpum 3% af veltu hins opinbera eða rúmlega 1% af vergri landsframleiðslu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir