Flutningabíll þveraði þjóðveginn og hreinsa þurfti upp olíu

Umferðaróhapp varð í gærmorgun þegar flutningabíll valt á þjóðveginum norðan við Grundartanga. Þveraði hann veginn svo þurfti að loka honum. Engin slys urðu á fólki en beina þurfti umferð um Akrafjallsveg á meðan unnið var á vettvangi. Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað út laust eftir kl. 10.30 vegna óhappsins, að beiðni lögreglu, vegna olíuleka á vettvangi.

Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóri sagði í samtali við Skessuhorn að um hafi verið að ræða olíu sem lak af eldsneytistanki bifreiðarinnar. Aðspurður segir hann að ekki hafi mikið magn olíu lekið af bílnum og að engin olía hafi lekið út af malbikinu. Þó hafi nægilegt magn lekið af bílnum til að gera hafi þurft ráðstafanir. „Við náðum að hefta lekann og settum svo uppsogsefni í olíuna sem hafði farið niður á malbikið. Svo kom sópbíll úr Reykjavík á staðinn og sópaði upp vettvanginn. Það er ekki stætt á öðru, annars verður svo hált,“ segir slökkviliðsstjórinn og bætti því við að vinna slökkviliðsins hafi gengið vel, en henni lauk um kl. 14:00. „Það gekk bara mjög vel hjá okkur og þetta fór allt mjög vel og var minniháttar, engin jarðvegsmengun eða neitt svoleiðis,“ segir Jens slökkviliðsstjóri að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir