Lárus og unnusta hans Kathleen. Ljósm. úr einkasafni.

„Að aðlagast nýrri menningu og siðum var mjög krefjandi“

Þegar Skagamaðurinn Lárus Beck Björgvinsson sótti um inngöngu í Leiklistarskólann árið 2011, og átti sér draum um leiklistarferil, kom honum ekki til hugar að þess í stað hæfist nýtt ævintýr í Mið-Austurlöndum sem átti eftir að breyta öllum hans framtíðaráformum. Lárus fékk snemma áhuga á leiklist en hann hafði tekið þátt í nokkrum verkefnum Leiklistarklúbbs NFFA en útskrifaðist síðan af leiklistarbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ, en sá skóli var sá eini á landinu sem bauð þetta nám. „Ég sótti um í Leiklistarskólanum árið 2011 og komst ekki inn í það skiptið en einungis 8-10 manns komust inn í skólann af um eitt hundrað sem sóttu um. Auk þess sem ekki eru teknir inn nemendur á hverju ári. Það er því nálarauga sem þarf að fara í gegnum til þess að komist inn.” sagði Lárus. „Þá gerðist það að faðir minn sá auglýsingu frá flugfélaginu Qatar Airways um að félagið væri að leita eftir flugliðum og áhugasamir gætu komið á kyningarfund á Íslandi í janúar 2014.“

Í Lárusi blundaði ævintýraþrá og löngun til þess að skoða sig um á fjarlægum og framandi slóðum. Hann vildi auk þess nýta tímann meðan hann væri frjáls og óbundinn og það væri því kjörið tækifæri að gerast flugliði á framandi slóðum. Hann sló því til og mætti í viðtal hjá fulltrúm Qatar Airways. Leist strax vel á það sem þeir höfðu að bjóða og gekk frá ráðningu og hugsaði sér að starfa hjá þeim í a.m.k. tvö ár.  „Við vorum fjögur frá Íslandi sem réðum okkur hjá félaginu, ég og þrjár stelpur. Hófst nú mikið ferli. Við urðum að fara í læknisskoðanir og gert að framvísa ítarlegum gögnum um heilsufar okkar, sem allt gekk að óskum. Við héldum svo til Katar í apríl 2014. Eins og gefur að skilja voru viðbrigðin mikil að koma til landsins héðan frá Íslandi og aðlagast nýrri menningu og siðum. Reglur og fyrirmæli flugfélagsins voru krefjandi fyrir okkur starfsfólkið. Okkur var útveguð íbúð í Doha, höfuðborg landsins, og voru við tveir saman í íbúð. Auk mín strákur frá Tékklandi. Reglur voru strangar og við urðum að vera komnir heim ekki seinna en klukkan ellefu á kvöldin fyrstu tvo mánuðina á meðan við vorum í þjálfun, sem var framandi fyrir unga menn. Áfengisbann var eins og tíðkast hjá múslimum og ekki mátti sjást að þú værir undir áhrifum á almannafæri og voru þung viðurlög við því.“

Í Skessuhorni vikunnar er nánar spjallað við Lárus. Hann er nú fluttur heim, starfar hjá Automtic heildverslun sem sérhæfir sig í varahlutum í bíla, iðnaðarvélar og tæki, en sjálfur er hann að koma sér upp þaki yfir höfuðið á Akranesi.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir