Nokkrar veiðiár á Vesturlandi hafa komið skemmtilega á óvart í sumar. Þar má m.a. nefna Fáskrúð í Dölum, Haffjarðará, Andakílsá og Hítárá þar sem þessi mynd var tekin. Ljósm. mm.

Veiði nú að ljúka í flestum laxveiðiánum

Laxveiðinni er nú að ljúka í ánum á Vesturlandi. Við rennum hér lauslega yfir sumarið, skoðum lokatölur þar sem þær liggja fyrir. Laxveiðin í sumar var undir meðallagi víðast hvar í vestlensku ánum, þótt á því séu vissulega ánægjulegar undantekningar. Fyrirfram höfðu sérfræðingar spáð góðri laxveiði í sumar, en þær væntingar gengu þó ekki upp víða þar sem heildarveiðin var léleg, en svona er veiðiskapurinn. Aldrei er á vísan að róa og því felst einnig spenna. Silungsveiði var hins vegar mjög góð víða um Vesturland í sumar.

„Já, við vorum að loka Efri Haukadalsá fyrir fáum dögum og það veiddust sex laxar og 70 bleikjur, nokkrar vel vænar,“ sagði Ásgeir Arnar Ásmundsson er við spurðum um Efri-Haukadalsá í Dölum, en öllum fiski var sleppt aftur í ána og verður svoleiðis eitthvað áfram.

Síðustu tölur úr Hvolsá og Staðarhólsá í Dölum voru yfir 100 laxar og mikið af bleikju.

Lokatölur úr Búðardalsá eru 140 laxar sem er heldur betri veiði en í fyrra.

,,Það eru komnir um 60 laxar á land og hellingur af sjóbirtingi. Það gengu líklega um 350 fiskar í gegnum teljarann, mikið af sjóbirtingi,“ sagði Trausti Bjarnason á Á er við spurðum hann um Krossána. „Við fórum um daginn og fengum sex laxa og níu sjóbirtinga, það var fiskur um alla á,“ sagði Trausti ennfremur.

Flekkudalsá endaði 135 löxum og eitthvað kom á land af silungi. „Veiðin hættir hjá okkur 30. september og núna eru komnir 260 laxar,“ sagði Einar Kristján Jónsson þegar við spurðum um Fáskrúð í Dölum og hann bætti við að þetta sé helmingi betri veiði en í fyrra.

Laxá í Dölum er að detta í 800 laxa núna en veitt er fram að mánaðamótum. Haukadalsá er að detta í 370 laxa og síðustu fréttir úr Miðá í Dölum voru 110 laxar og mikið af bleikju.

„Við erum að klára en það eru komnir yfir 60 laxar og 140 bleikjur,“ sagði Níels Sigurður Olgeirsson á Seljalandi í Hörðudal, um stöðuna í Hörðudalsá.

Litlar fréttir eru af Dunká og sömuleiðis frá Álftá á Mýrum, en Álftá gaf fiska þegar veiði var reynd í henni. En lítið er um veiðitölur.

Straumfjarðará gaf að minnsta kosti 270 laxa og eitthvað af silungi. Mikið virðist hafa veiðst af sjóbirtingi á stórum hluta Vesturlands þetta árið. Fyrir þremur árum var það flundran, en núna er birtingurinn meira áberandi. Svona getur veiðin breyst ár frá ári.

Haffjarðará gaf vel af fiski í sumar, eða 1.126 laxa sem er helmingi meira en í fyrrasumar. Áin trónir líklega á toppi vestlensku ánna þegar upp er staðið, en Langá og Þverá fylgja fast á eftir. Mikið af laxi var í Haffjarðará núna þegar veiðitímanum lauk.

Hítará kom vel undan þessu sumri þrátt fyrir skriðuna sem féll í hitteðfyrra og lokaði stóru veiði- og hrygningarsvæði. Í sumar skilaði áin 503 löxum sem er miklu betra en fyrir ári og umfram væntingar.

Þegar allt er talið í Langá á Mýrum, fjallið og allur pakkinn, er heildarveiðin nálægt 1100 löxum og er áin líklega sú næstaflahæsta eftir sumarið.

„Þetta er betri veiði en í fyrra, 979 laxar núna,“ sagði Einar Sigfússon um lokastöðuna í Norðurá í Borgarfirði.

Síðustu tölur úr Gljúfurá eru í kringum 200 laxar og eitthvað aðeins af silungi einnig.

Síðustu tölur úr Þverá í Borgarfirði eru 1056 laxar en eitthvað á eftir að bætast við þá tölu.

Flókadalsá í Borgarfirði endaði í 222 löxum sem er aðeins minna en fyrir ári. Við fréttum af veiðimönnum undir það síðasta og fengu þeir fjóra laxa.

Grímsá var komin með 561 lax og eitthvað af sjóbirtingi hefur einnig komið á land. Svipuð veiði og fyrir ári síðan.

Straumarnir gáfu 190 laxa og mikið af silungi.

Á Seleyrinni veiddist töluvert af silungi í sumar og einn og einn lax.

Andakílsá er nú öll að koma til sem betur fer og veiðin var frábær á eina stöng í sumar, eins og við fjölluðum um nýverið. ,,Það verða seld veiðileyfi í ána á næsta ári,“ staðfesti Jón Þór Ólason formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, eftir þetta góða sumar í Andakílsá.

Leirá hefur tekið góða spretti síðan í vor og hefur bæði gefið laxa og sjóbirtinga. ,,Við fengum flottan sjóbirting og þetta var gaman,“ sagði Kári Jónsson sem var að veiða á mánudaginn í ánni ásamt syni sínum. „Það er ágætt að enda sumarið í sjóbirtingi,“ sagði Kári við Leirá. Áin var reyndar mjög vatnsmikil eftir rigningar síðustu daga og svipaða sögu er reyndar að segja um allt Vesturland. Ennþá er því sjóbirtingurinn að ganga í árnar, meðal annars í Leirá.

Laxá í Leirársveit endaði í 600 löxum og er það mun betri veiði en í fyrra. Mikið veiddist af silungi líka.

Líkar þetta

Fleiri fréttir